150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:47]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Forseti. Við ræðum frumvarp til laga um ferðagjöf, en fyrir liggur álit meiri hluta atvinnuveganefndar. Eins og fram kemur í álitinu fjallaði nefndin nokkuð ítarlega um málið og fékk á sinn fund fjölda gesta. Þó að umfjöllun nefndarinnar hafi í raun tekið ótrúlega skamman tíma og þótt málið láti lítið yfir sér, er margt flóknara í því en virðist við fyrstu sýn. Ég tel að sú gagnrýni sem kom frá ráðuneytinu sé ekki alveg sanngjörn, að við værum að tefja málið, því að við höfum í raun fjallað um það og gengið frá því á ótrúlega skömmum tíma miðað við allt og allt. Um er að ræða mál sem er að mörgu leyti gott og ég styð meginmarkmið þess. Þarna er, má segja, verið að slá tvær flugur í einu höggi, þ.e. verið er að styrkja innlenda ferðaþjónustu og auðvelda Íslendingum að ferðast um landið í sumar, sem hlýtur að vera jákvætt. Það er einmitt svolítið skemmtilegt þetta sumarið að geta ferðast um landið sitt, um landið okkar, og verið ein að því. Já, Íslendingar eru kannski heppnir að því leyti þetta sumarið þó að ástæðurnar séu náttúrlega sorglegar og afleiðingarnar líka.

Með samþykkt þessa frumvarps verður stjórnvöldum heimilt að gefa út stafræna inneign að fjárhæð 5.000 kr. til einstaklinga sem fæddir eru árið 2002 eða fyrr og hafa íslenska kennitölu. Eins og fram hefur komið er hér verið að færa alls um 1,5 milljarða kr. til Íslendinga, 18 ára og eldri, og frá þeim til ferðaþjónustufyrirtækja sem þurfa svo sannarlega á stuðningi að halda, eins og við þekkjum.

Þetta er hins vegar eitt af þeim málum sem eru flóknari en þau líta út fyrir að vera. Það voru einfaldlega of margar spurningar sem ég taldi að enn væri að einhverju leyti ósvarað þannig að ég gæti verið með á nefndaráliti meiri hlutans. Eins og komið hefur fram er t.d. spurning hvort við hefðum átt að rýmka enn frekar afmörkunina sem lögð er til í 2. mgr. 1. gr. þannig að hún tæki t.d. til aðila sem leigja út búnað til útivistar, eða þannig að öll söfn og fyrirtæki sem bjóða sýningu gegn endurgjaldi hefðu fallið undir þetta. En að sama skapi má spyrja hvort útfærslan sé mögulega of rúm eins og hún er í dag og hvort eingöngu hefði átt að miða við aðila í gistiþjónustu og ferðaafþreyingu.

Þá kom fram mjög áhugaverð ábending í umsögnum Vestfjarðastofu og Sambands íslenskra sveitarfélaga til nefndarinnar, um að lengja gildistímann til og með 31. maí næstkomandi. Þannig hefði vissulega mátt framlengja gildistíma ferðagjafarinnar fram á næsta vetur og styðja þar með við ýmiss konar vetrarferðaþjónustu, sem liggur niðri yfir sumartímann eðli málsins samkvæmt. Það var mat meiri hluta nefndarinnar, og kom svo sem fram í vinnu nefndarinnar, að hér væri um að ræða de facto ríkisaðstoð og því erfitt að leggja fram slíkar breytingar. En ég er þó enn á þeirri skoðun að vert hefði verið að skoða það mál e.t.v. aðeins betur, enda ekki síður mikilvægt að styðja við vetrarferðaþjónustu, sem við höfum einmitt sett mikið púður í að byggja upp á síðustu árum. Eins og komið hefur fram, og kom fram í andsvörum við hv. framsögumann, vöknuðu spurningar við umfjöllun nefndarinnar um hvort nægjanlega vel væri staðið að persónuvernd í því appi sem nota á. Sömuleiðis hvort eðlilegt hefði verið að nýta einfaldlega Ísland.is og eins hvort þurft hefði, og hefði verið eðlilegt, að bjóða verkefnið út.

Forseti. Eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans var rætt í nefndinni hvort ástæða væri til að gera breytingar í þá átt að hækka fjárhæð ferðagjafarinnar og færð rök fyrir því af hverju það væri ekki gert. Hins vegar finnst mér hafa vantað örlítið í nefndarálit meiri hlutans umræðu sem einnig átti sér stað, þ.e. hvort ekki hefði verið ástæða til að útvíkka ávísunina á þann hátt að allir Íslendingar, óháð aldri, fengju hana. Það myndi vissulega hækka heildarfjármagn til gjafarinnar, en það hefði verið „win win“, afsakið, forseti. Það hefði verið jákvætt fyrir ferðaþjónustuna en ekki síst hefði það verið gert til að koma betur til móts við barnafjölskyldur sem hefðu þá e.t.v. getað leyft sér meira í sumar. Það hefði að mínu mati gert málið betra og hefði mögulega getað tryggt stuðning þingflokks Samfylkingarinnar við málið.