150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[19:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og ég vildi að ég gæti eytt mörgum hans „efum“ en það sem liggur fyrir er að við höfum náð í fyrsta sinn í mjög langan tíma um sameiginlega sýn á það að við ætlum að byggja hér upp samgönguleiðir, samgöngumannvirki á höfuðborgarsvæðinu til að bregðast við þeirri stöðu sem er í dag og líka til að takast á við þá framtíð sem við sjáum öll að blasir við okkur; aukin umferð, að ná markmiðum okkar í loftslagsmálum o.s.frv. Það er alveg stafað út í nefndaráliti okkar og kemur mjög skýrt fram í greinargerð með frumvarpinu að félagið og stofnun þess er lykillinn að því að komast af stað við að undirbúa framkvæmdirnar. Sveitarfélögin leggja líka fram fjármuni í félagið, við skulum ekki gleyma því. Þetta er 120 milljarða kr. verkefni. Af þeim fjármunum leggja sveitarfélögin fram 15 milljarða og hlutverk þeirra er síðan ekki síst að samræma sín á milli, sem er mikilvægur þáttur, því að við erum með mörg sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Það er áhugaverð umræða sem ég ætla ekki að fara út í hér, hvernig það eitt og sér getur staðið í vegi fyrir framförum í samgöngumálum, að svona mörg sveitarfélög séu á litlu svæði.

Í annan stað held ég að við getum ekki gengið lengra fram í því að marka fjármögnunina en þarna er teiknað upp. Það sem er raunverulega stærsta óvissan, að mínu viti, er hvernig við ætlum að útfæra flýtigjöldin og þann 60 milljarða hluta samkomulagsins. Það hangir síðan aftur við, og ég bið hv. þingmann að gleyma því ekki, að við þurfum að fara í endurskoðun á skattlagningu umferðar og ökutækja, einfaldlega vegna þess árangurs sem við höfum náð í að skipta út eldsneytisgjafa þannig að við byggjum þá skattlagningu allt of mikið á notkun jarðefnaeldsneytis, (Forseti hringir.) það er því augljóst að við endurskoðun á þeirri skattlagningu verðum við að horfa til nýrra aðferða.