150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[19:13]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsöguna. Miðflokkurinn getur ekki fallist á áform um byggingu borgarlínu en við fögnum hins vegar áherslum á nútímavæðingu á ljósastýringarkerfi höfuðborgarsvæðisins, samkomulagi um framkvæmdir á stofnbrautum og áætlaðri uppbyggingu hjólastíga og annarra vistvænna samgöngumáta. Hvað borgarlínuna varðar er mikil óvissa um skipulag, framkvæmd, rekstur og fjármögnun þess hluta samkomulagsins sem snýr að henni.

Þá vil ég spyrja hv. þingmann: Er forsvaranlegt að ráðast í framkvæmd sem að stórum hluta á að greiða úr ríkissjóði — sem sagt er að muni kosta 50 milljarða en sumir vilja meina að hún geti endað í 250 milljörðum í ljósi efnahagsástandsins, veirufaraldursins — og að ríkið eigi að leggja svo mikla peninga í verkefnið? Þarf ekki að upplýsa höfuðborgarbúa og aðra landsmenn sem allra fyrst um það hver á að fjármagna borgarlínuna? Eiga íbúar Vestfjarða að greiða með sínum sköttum fyrir hana? Þeir keyra jú á holóttum malarvegum. Eiga þeir ekki rétt á að vita hver borgar framkvæmdina, hvort þeir eiga að greiða hærri skatta, vegna þess að þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu þurfi að vera tíu mínútur á leið í vinnuna en ekki 15 mínútur?

Ég vildi bara spyrja hv. þingmann því að það er svo margt óljóst í þessu borgarlínumáli: Er forsvaranlegt að halda áfram með það svona, með borgarlínuna þarna inni þegar er svona mikil óvissa um skipulag, framkvæmd, rekstur o.s.frv.?