150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[14:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi vil ég taka undir með hv. þingmanni. Við tölum ansi oft og mikið um lítil og meðalstór fyrirtæki án þess endilega að gera mjög mikið í að laga umhverfi þeirra. Það er rétt að langstærsti hluti fyrirtækja á Íslandi tilheyrir þeim hópi, það eru fyrirtæki sem eru í eigu fjölskyldna eða þá einstaklingar sem hafa farið af stað í rekstur o.s.frv.

Hv. þingmaður spurði um tækni. Ég er sammála honum um það að við eigum að reyna að leita leiða til að nýta tæknina fyrir litlu fyrirtækin og einstaklingana til að standa skil á því öllu saman. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki alveg nógu vel inni í því en nú veltir maður fyrir sér hvaða upplýsingar eru þegar til í kerfinu í dag, í tölvukerfum ríkisins. Þarf allar þessar færslur, alla þessa vinnu sem einstaklingar leggja á sig? Nú verður vinur minn einn, endurskoðandi, væntanlega móðgaður en þarf alla þessa endurskoðendur til að sinna litlu og meðalstóru fyrirtækjunum ef hægt er að fara fram með meiri upplýsingagjöf sem er sjálfvirk eða þá að menn geti bara ýtt á takka í tölvunni heima og sent? Það eru reyndar mjög fá ár síðan mjög margir bændur þurftu að setja í gang niðurhalið, fara svo út í fjós og koma svo heim þegar það var búið en það er að batna.

Við eigum líka, og kannski eigum við að byrja þar, að horfa til þess hvort regluverkið gæti ekki verið einfaldara fyrir þessi fyrirtæki og færa svo regluverkið inn í nútímann, inn í framtíðina, nýta okkur tækni og hugbúnað og annað sem er pottþétt til, þó að ég viti það ekki, til þess að láta það ganga miklu hraðar fyrir sig. Fjósin eru orðin sjálfvirk og vélræn ef við horfum bara á þann hluta landbúnaðarins. Menn fá það sem er að gerast í fjósinu í farsímann sinn þannig að við hljótum að geta fært það inn í bókhaldið líka.