150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[14:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Píratar eru mjög rómantískir. Við hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson náðum saman um landbúnaðarrómantíkina og við hv. þm. Smári McCarthy náðum saman um framtíðarsýnina og rómantíkina í sjálfvirkninni sem er fram undan. Í því samhengi eru hlutir sem við þurfum að velta líka fyrir okkur og það er að umgjörðin sem er búin til, vonandi bara kjarasamningar, tekur gjarnan mið af einhverjum risastórum raunveruleika, stórum fyrirtækjum. Oft og tíðum er, að manni finnst, verið að semja með þeirra hagsmuni að leiðarljósi eða út frá þeirra forsendum og það hefur áhrif en er ekki endilega það besta fyrir litlu og meðalstóru fyrirtækin sem eru stærsti hlutinn af atvinnulífi okkar.

Varðandi það sem hv. þingmaður velti fyrir sér undir lokin, þá hljóta að vera mjög margar vinnustundir á hverjum degi hjá þeim sem eru með lítil fyrirtæki sem fara í það að gera þetta með einhverjum handvirkum hætti. Nú er ég að rifja upp, það eru nokkur ár síðan ég var með rekstur fyrirtækis, mér fannst alltaf — þótt það væri mikil sjálfvirkni svo sem í þessu — fara allt of mikill tími í eitthvert handvirkt dótarí. Eftir því sem það verður sjálfvirkara og streymir sjálfvirkt í gegn, þá fækkar þeim vinnustundum sem menn þurfa að nota í það. Þeir geta þá notað þær í eitthvað annað í fyrirtækinu, til að búa til eitthvað nýtt, leggja tíma og fjármuni í nýsköpun. Hjá einstaklingi eða litlu fjölskyldufyrirtæki með flókið bókhald og umsýslu þarf einhver að sjá um það. Ef menn gera það ekki sjálfir þá þarf að kaupa til þess vinnu sem kostar pening. Það væri hægt að nýta tímann í annað, skapa betri framtíð og horfa á nýjungar og tækni og fylgjast með öllu því sem er að gerast. Ég hugsa að í framtíðinni verði þetta allt miklu sjálfvirkara. (Forseti hringir.) Það er bara spurning hvort við getum flýtt fyrir með einhverjum hætti, hugsanlega tekið af skarið á Íslandi og verið fremst í flokki.