150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[14:51]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég var að senda atvinnuveganefnd rétt í þessu bréf um tvö mál sem ég nefndi undir liðnum um fundarstjórn forseta í upphafi þingfundar. Málin komu út í sátt en annað er saltað af því að það hefði brotið gegn stjórnarskrá hefði það verið keyrt í gegn. Við vitum það því við fengum á okkar fund stjórnarskrársérfræðinga. Það átti að keyra það í gegn. Nú á að fara að keyra annað mál í gegn sem frumvarp forseta. Við, fjórðungur nefndarinnar, báðum um fund stjórnskipunarsérfræðinga á miðvikudaginn. Samkvæmt þingsköpum á formaður nefndarinnar að verða við því innan þriggja daga. Hún kallar einhvern annan aðila til í dag. Við báðum um Margréti Einarsdóttur eða Kristínu Haraldsdóttur sem komu og vörnuðu því að keyrt væri í gegnum Alþingi mál sem hefði brotið gegn stjórnarskrá. Við óskuðum eftir að fá þessa sérfræðinga og mögulega Björgu Thorarensen til þess að passa upp á að skoða stjórnarskrárvinkilinn í máli ráðherra um lax- og silungsveiði þar sem þeir sérfræðingar sem þó komu sögðu að það þyrfti að skoða þann vinkil betur. Þeir mæta. (Forseti hringir.) Nefndinni hefur verið sent bréf, þessi ítrekun sem er samkvæmt þingsköpum. Ég nefndi þetta við formann atvinnuveganefndar, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, hérna (Forseti hringir.) fyrir utan rétt áðan og sagði henni að ég væri að koma hingað til að láta alþjóð vita af þessu. Hún sagði: Við skulum skoða þetta. Þetta er þá í (Forseti hringir.) skoðun.