150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[15:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að ég held að hv. þingmaður hafi mátað mig þarna [Hlátur í þingsal.] með andsvari sínu. Að sjálfsögðu er þetta alveg rétt. Í nánustu framtíð verður enn þá meiri hraði og enn þá meiri sjálfvirkni í þessu öllu saman. Hægt er að fylgjast með þessu dag frá degi í rauninni. Samt veltir maður fyrir sér hvort þörf sé á þeim flóknu reikningum sem menn skila á hverju ári í dag.

Síðan held ég að við verðum líka aðeins, það er alla vega mín skoðun, að gera greinarmun á stórum fyrirtækjum sem eru með marga hluthafa, flókna reikninga og eignarhald og þeim litlu fyrirtækjum sem við ræddum svo rómantískt hér fyrr í dag sem eru með tiltölulega lítið umfang og lítinn rekstur en þurfa samt að standa skil á obbanum af því sem allir aðrir þurfa að standa skil á. Það gæti verið gert sjaldnar, ekki síst kannski í ljósi þess að upplýsingaflæðið er mjög hratt og gott. Það er nú hægt að hártoga þetta svolítið eins og hænuna og eggið. Ég held hins vegar að við eigum að nýta okkur tæknina, ég er algjörlega sammála því (Forseti hringir.) þegar fram í sækir en mér finnst allt í lagi að velta hinu fyrir sér.