150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[15:30]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Málið er í sjálfu sér ekki svakalega flókið. Þetta er aðallega tæknilegt mál sem fjallar um hvað gerist t.d. þegar fyrirtæki eru í gjaldþrotameðferð, hvernig á að haga málum gagnvart þeim, til að mynda ef þau lenda í vanskilum og hvernig er hægt að ganga á eftir fyrirtækjum með ársreikninga og annað ef þau hafa ekki skilað þeim. Þetta er þannig séð bara tæknileg lagfæring og það eru skilaboðin sem ég sendi þingflokknum mínum þegar við vorum að tala um málið, að þetta væri tæknilegt lagfæringarmál og af hinu góða.

Ræðan mín snerist kannski meira um að horfa á málið í víðara samhengi og segja: Af hverju göngum við ekki lengra í því að laga stærri kerfislæga galla í þeim upplýsingum sem fyrirtæki eru látin skila? Eitthvað af því er bara sjálfsagt og eðlilegt að komi með tíma en annað vantar kannski dálitla hvatningu til að fjallað verði um það. Þess vegna er ég að hvetja til þess.