150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[15:42]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem spurt er hvers vegna dagskráin sé eins og hún er en ég hef enn ekki fengið opinberu skýringarnar á því hvers vegna síðasta málið á dagskrá, húsnæðismál, hlutdeildarlán, er síðasta mál á dagskrá. Ég tel mig vita hvers vegna það er síðast á dagskrá. Það er vegna þess að forseta hefur þótt það vera á einhvern hátt þingtaktískt betra en það er ekki betra upp á að málið klárist, nái í gegn. Það virðist ekki vera neinn ágreiningur á Alþingi um að það sé mál sem beri að klára sem allra fyrst, enda hefur það bein áhrif á þá alvarlegu stöðu sem er komin upp í samfélaginu varðandi samkomulag á vinnumarkaði. Það væri því ágætt ef við myndum temja okkur það vinnulag á Alþingi að forseti útskýrði hvers vegna hann kjósi að hafa mál síðast á dagskrá sem virðist ríkja algjör samhugur um að sé mikilvægasta málið á dagskrá. Hvers vegna er það ekki fyrst á dagskrá? Ég tel mig þekkja raunverulega útskýringuna en það væri gaman að heyra þá opinberu (Forseti hringir.) og athuga hvort hún sé ekki örugglega sú sama.