150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[15:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Um nákvæmlega það sama, 16. mál á dagskrá, húsnæðismál, hlutdeildarlán. Það var kvartað undan þessu í upphafi þingfundar og forseti bent á að þetta væri gríðarlega mikilvægt mál. Það eru tveir dagar liðnir síðan formaður VR sagði að forsendur lífskjarasamningsins væru brostnar, m.a. vegna þess að ekki væri búið að afgreiða þetta mál. Þegar það kemur fram hérna tveimur dögum seinna myndi maður ætla að það hefði forgang í þinginu að koma því á dagskrá og í umræðu og inn í nefnd til umsagnar o.s.frv., til að athuga hvort það stæðist í rauninni þá samninga sem voru gerðir. Við höfum heyrt fréttir af því að málið hefur verið fast í fjármálaráðuneytinu þar sem hafa verið gerðar ýmsar breytingar á því, miðað við forsendurnar sem voru gefnar fyrir lífskjarasamningunum og hvernig það var lagt fram upphaflega af verkalýðsfélögunum. (Forseti hringir.) Það er gríðarlega mikilvægt að vinna þetta mál sem fyrst.