150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[15:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er eins og hv. 10. þm. Suðurk., Smári McCarthy, sagði áðan og sagði við þingflokk Pírata á sínum tíma líka: Þetta er tæknilegt mál sem er ágætt, ákveðið agatæki til að fá fyrirtæki til að skila ársreikningum á tilsettum tíma ásamt einhvers konar miskunnarákvæðum þannig að hægt sé að gefa þeim tækifæri til að bæta sig ef út af bregður. En það má líka spyrja: Hvers vegna þarf þessi miskunnarákvæði, ef það er svo sjálfsagt að skila ársreikningi og tilheyrandi gögnum, sem það er vitaskuld? Það er ekki bara vegna þess að fólk sem rekur fyrirtæki langi ekki til að gefa upp þessar upplýsingar. Það er ekki heldur vegna þess að það hafi eitthvað að fela í þessum upplýsingum, almennt. Það er ekki heldur vegna þess að þessir aðilar nenni því ekki. Ég myndi giska á að það sé langalgengast að þeir hafi hreinlega ekki tíma til þess og jafnvel ekki þekkingu til þess heldur þurfi að ráða sér aðstoð utan úr bæ til þess að veita þessar upplýsingar, þ.e. ársreikninga.

Í kringum allan rekstur er gerð ákveðin krafa af hálfu yfirvalda, fyrir hönd kjósenda, að sá eða sú sem rekur fyrirtækið láti af hendi alls kyns upplýsingar í alls kyns tilgangi. Sumar upplýsingar eru spurning um einfalt gegnsæi, t.d. eignarhald eða því um líkt. Aðrar upplýsingar eru til þess að hægt sé að skattleggja rétt, svo sem upplýsingar um eignir, tekjur, kostnað og þess háttar og eflaust líka upplýsingar til þess að geta gert ýmsar greiningar, segjum fjölda fyrirtækja eða þróun fjölda fyrirtækja eða hvaðeina. Það er allt gott og blessað. Markmiðið er jákvætt. Við þurfum skatta, við þurfum gegnsæi og við þurfum að geta greint hagkerfi okkar og fyrirtækjarekstur í því og starfsemina sem þar á sér stað o.s.frv., af ýmsum ástæðum. En það sem ég velti fyrir mér, þegar ég les frumvörp eins og þessi, er: Hvað annað getum við gert til að létta okkur lífið? Hvað annað er hægt að gera en að hóta fyrirtækjum til að þau skili ársreikningi á réttum tíma?

Svarið er mjög augljóst. Það er að gera það einfaldara að skila ársreikningi. Nú er kannski ekki besti tíminn til að skamma yfirvöld í þeim efnum vegna þess að það hefur orðið ákveðin framþróun í því. Til er fyrirbæri sem er kallað Hnappurinn og hjálpar litlum fyrirtækjum sem uppfylla ákveðin skilyrði að skila ársreikningi með einföldum hætti miðað við hitt ferlið. En það er samt tiltölulega flókið fyrir einstakling sem hefur of mikið annað að gera. Það er nefnilega þannig í fyrirtækjarekstri og atvinnustarfsemi að fólk sérhæfir sig í ýmsum hlutum. Sumt fólk múrar, annað fólk forritar, enn annað fólk er í lögfræði. Fólk gerir alls konar hluti og það er fáheyrður sá iðnaður sem ekki er stundaður að einhverju leyti af einyrkjum eða mjög smáum fyrirtækjum sem vilja sérhæfa sig í þeim tiltekna iðnaði. En það er alltaf undirliggjandi þessi krafa, ákveðin tilætlunarsemi að mínu mati, að hvert einasta fyrirtæki, hvort sem það er einn starfsmaður eða 100.000, hafi ákveðna grunnþekkingu á því sem í daglegu tali er kallað skriffinnska. Við á Alþingi köllum þetta almennt ekki skriffinnsku og ekki bókhaldarar, skattsérfræðingar eða lögfræðingar sem vinna við þetta. Þetta er ekki skriffinnska í þeim skilningi að þetta sé neikvætt en fyrir aðila sem eru einfaldlega ekki í þessum bransa, heldur eru að gera eitthvað allt annað og hafa ekki áhuga á efnisinntökum og þess háttar í kringum skatta og ársreikninga, er þetta skriffinnska og ekkert annað. Þegar við sýnum viðleitni til að einfalda þetta erum við ekki bara að gera þeim greiða heldur erum við, frá sjónarhorni þeirra, að draga úr skriffinnsku sem er gott. Við eigum að draga úr skriffinnsku eða hvað við viljum kalla þetta fyrirbæri sem er þessi skylda til að hafa hlutina skrásetta, hafa formið í lagi og þess háttar. Ég geri ekki lítið úr því. Það er mjög mikilvægt og þess vegna erum við að ræða þetta frumvarp og ég styð það. Þetta er fínt frumvarp.

Það er hins vegar ansi margt sem er hægt að gera til viðbótar til ° að minnka þörfina á þessari svokölluðu skriffinnsku. Ég vil meina að það séu vannýtt tækifæri í þeim efnum, mjög vannýtt. Ástæðurnar fyrir því eru eflaust margslungnar. Þær eru ábyggilega til í tveimur, þremur víddum. Ég get nefnt eina sem ég hef sjálfur rekist á sem forritari í gegnum tíðina. Það er hvernig sérfræðiþekking á ýmsum sviðum er á allt öðrum stað í samfélaginu en sú sérfræðiþekking sem þarf til að einfalda ferlið. Bókhald og hugbúnaðargerð eru dæmi um tvo sérfræðiþekkingarheima sem skarast afskaplega lítið og slíkir heimar eru fleiri. Ég gæti nefnt Alþingi og hugbúnaðargerð. Nú vil ég byrja á því að hrósa tölvudeild Alþingis og aðilum sem sinna því að gefa út gögn Alþingis vegna þess að þau eru á margan hátt mjög góð. Hins vegar höfum við almennt í gegnum tíðina ekki staðið okkur nógu vel í því að nýta þessa tækni upp að því marki sem er mögulegt. Ástæðan er sú að það starf sem fer fram hér er afskaplega frábrugðið starfinu sem felst í því að beita hugbúnaði til að leysa þau verkefni. Það þarf í raun og veru einstaklinga, eða iðnað, einhvers konar iðnað, sem hafa þekkingu á hvoru tveggja. Þetta er gegnumgangandi í hugbúnaðargerð og í hugbúnaðarlausnum og tæknigeiranum almennt. Það er ákveðið tengslaleysi milli hugbúnaðargerðarinnar sjálfrar annars vegar og hins vegar verkefnanna sem er verið að leysa. Þetta er reyndar mjög dæmigert vandamál. Það er í sjálfu sér engin lausn til á því önnur en sú að halda áfram að reyna því að allt mjakast þetta jú í rétta átt.

Yfirvöld eiga hrós skilið fyrir að bæta mjög margt sem varðar skatta og skil á ársreikningum og þess háttar. Það eina sem ég er að segja er að tækifærin eru vannýtt, m.a. af þessari ástæðu. En ég hygg að alvarlegra vandamál sé að reglurnar sem eru settar í kringum hina svokölluðu skriffinnsku — ég ætla að leyfa mér að kalla það það til að tala sama „lingó“ og sumir úti í samfélaginu — eru ekki settar með hliðsjón af hugbúnaðargerð. Þær eru settar með hliðsjón af hefðum sem hafa myndast í gegnum tíðina, reglum sem hafa þróast með tilliti til allt annarra hluta en að einfalda regluverkið, hafa þróast til að hindra skattsvik sem dæmi eða til að tryggja að skilastaðlar séu eins á milli landa eða í mismunandi iðnaði eða eitthvað því um líkt. Það eru bara allt aðrar forsendur en þær sem liggja að baki því að nýta hugbúnaðartækni til þess að einfalda regluverk og draga úr skriffinnsku.

Af þeim ástæðum þurfum við líka að huga að því í svona málum hvernig við getum gert hlutina einfaldari fyrir fólk. Við leysum það í sjálfu sér ekki á Alþingi en við hér þurfum að hafa skilning á því hvernig við nálgumst vandamálið. Það þýðir t.d. að átta okkur á því hvar tækifærin eru. Þau eru mjög víða og mjög vannýtt að mínu mati. Sömuleiðis þurfum við að átta okkur á því hvenær við höfum sett reglur eða valdið kostnaði eða sett upp hindranir sem hindra nýtingu tölvutækninnar. Ég get nefnt dæmi þar sem kostnaður eða einhver slík hindrun gerir það að verkum að það er ekki bara erfiðara að nýta tölvutæknina til þess að leysa vandamálið eða búa til eitthvað nýtt sem sparar öllum tíma og vinnu heldur er tölvutæknin beinlínis notuð til þess að koma í veg fyrir að hægt sé að nota hana til að einfalda hlutina.

Tökum dæmi. Þegar fólk fær reikning heim til sín á pappírsformi. hugsar það kannski með sér: Það væri betra að fá þetta á tölvutæku formi. Það fer inn á heimabankann, fer inn í rafræn skjöl og finnur þar reikningana sína og getur þar tekið niður tölurnar og eitthvað því um líkt. Það er þó tiltölulega frumstætt vegna þess að það eru engin staðall um það hvernig þessir reikningar birtast. Þeir líta allt öðruvísi út hjá einu fyrirtæki en öðru. En þessi þróun gerir þó kleift að skoða rafræn skjöl í heimabanka frekar en á pappír inn um lúguna, það er hægt að safna þeim saman og vinna þau gögn einhvern veginn. En nýlega hafa sum fyrirtæki tekið upp á þeim ósið, því miður, að senda ekki reikninga og þvertaka hreinlega fyrir að senda reikninga til viðskiptavina sinna, heldur segja: Þið skuluð bara að skrá ykkur inn á vefsíðu fyrirtækisins með Íslykli eða rafrænum skilríkjum og finnið reikningana ykkar þar og halið þeim niður, vistið á tölvunni og setjið í einhverja möppu og þar fram eftir götunum. Það er að mínu mati miklu nær því að meðhöndla pappír en að fá skjalið inn í rafræn skjöl í heimabankanum. Þetta er gert vegna kostnaðar, vegna hindrunar sem að mínu mati þyrfti að laga. Þetta er bara dæmi. Þetta er ekkert alvarlegasta vandamálið í bransanum. Þetta er aðeins eitt dæmi um það hvernig reglur og kostnaður og hindranir geta komið í veg fyrir að möguleikar verði að lausnum vegna þess að það svarar ekki kostnaði fyrir aðilann sem þarf að borga eða vinna vinnuna til að vinna bug á einhverju. Þá verða til svona lausnir sem mér þykja persónulega óþolandi og reyndar líka þeim bókurum sem ég hef talað við um þetta efni, þeir eru almennt mjög pirraðir yfir þessu öllu saman, eðlilega. Þetta flækir málin og tekur tíma.

Annað sem er líka mjög algengt og sést gjarnan í ársreikningum sem eru gerðir með hinum fyrrnefnda Hnappi, sem er einfaldari leið til að búa til ársreikninga, er að á bak við ofboðslega margt verklag sem felur í sér að við ætlum að nota tölvu er ekki hugsað um gögnin og eðli gagnanna og hvernig þau séu best birt og hvernig þau séu best nýtt, heldur er spurt: Hvernig hefur þetta verið í gegnum tíðina? Jú, þessu hefur verið skilað á pappír. Þá er farin sú leið að setja pappírinn inn í tölvuna. Búa til eitthvert PDF-skjal sem lítur út eins og blaðsíða og er vissulega hægt að prenta út en það er líka eiginlega eina notagildið. Það er sjálfsagt að geta prentað hlutina út og ekkert því til fyrirstöðu, það er sjálfsagt að geta fengið PDF-skjöl. Það er bara mjög gott. En það hvernig litið er á grunngögnin sjálf út frá pappírshugsunarhætti, þótt tölvan sé fyrir framan fólk og allar tölur og öll gögn séu til á tölvutæku formi, tefur fyrir framþróun á svona sviðum, virðulegi forseti.

Mér finnst mikilvægt að Alþingi átti sig á þessu og stofnanir sem heyra undir Alþingi. Ég ítreka bara að flestar stofnanir sem ég veit um og bera ábyrgð á framþróun í þessum efnum eiga hrós skilið fyrir ýmsa mjög mikilvæga og jákvæða þróun í gegnum tíðina, t.d. skil einstaklinga á tekjuskatti, þ.e. álagningarseðillinn. En þessir aðilar kvarta væntanlega undan fjárskorti, það séu ekki nægir peningar til að framkvæma þessa hluti. Ég hygg að það sé alveg hárrétt, vegna þess að fólk utan hugbúnaðargeirans áttar sig oft ekki á mikilvægi þess að gögnin sjálf og tæknilegt fyrirkomulag og tæknileg framsetning á gögnum er lykilatriði. Hún er ekki aukaatriði. Hún er ekki eitthvað sem auðveldar forriturum lífið, þótt ég sé hlynntur því að gera það eftir fremsta megni almennt, heldur er grundvöllur þess að hægt sé að nýta tæknina til þess að gera hlutina auðveldari fyrir fólk sem er ekki forritarar og hefur ekki sérfræðiþekkingu á hugbúnaðargerð og hefur hvorki sérfræðiþekkingu á bókhaldi né nokkurn einasta áhuga á því að læra að búa til ársreikning og skila honum. Þegar allt kemur til alls er mjög mikilvægt að við virðum það sjónarmið. Við verðum að passa okkur á því að hugsa um skriffinnsku sem skriffinnsku vegna þess að þannig birtist hún aðilanum úti í bæ sem er að reka sitt agnarsmáa fyrirtæki og vill sinna iðnaði sínum hver sem hann er. Það hefur enginn gaman af skriffinnsku og það er ekki vegna þess að fólk sé óþekkt eða latt heldur vegna þess að það hefur eitthvað betra við tíma sinn að gera. Það er ábyrgðarhluti okkar á Alþingi að skilja þetta sjónarmið, bera virðingu fyrir því og gera það sem í okkar valdi stendur til að fjármagna þær lausnir sem geta komið til móts við það og sömuleiðis að huga að tæknilegu samræmi regluverksins sem við setjum.