150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[16:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég gerði athugasemd í ræðu minni áðan um 3. gr. frumvarpsins, sem er gildistökugreinin, og hljómar svo:

„Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skal 1. gr. ekki öðlast gildi fyrr en 1. janúar 2020.“

Við erum að reyna að klóra okkur í gegnum breytingartillögurnar, hvort þær eigi við. Það er talað um að 2. málsliður 3. gr. falli brott og það er verið að bæta við nýrri grein, það er flókið að klóra sig fram úr þessu. Það væri mun betra ef þingskjölin væru á tölvutæku formi, þá myndi maður sjá betur hvað ætti við hvar og hver lokaniðurstaðan væri. Ég er eiginlega bara með beiðni til forseta um að ljúka ekki umræðunni. Ef það þarf að breyta þessu atriði þá þarf að gera grein fyrir þeirri breytingartillögu í umræðunni. Það er ekki hægt þegar umræðu er lokið og það eru ekki fleiri á mælendaskrá. Ég biðla til forseta að fresta umræðunni, í staðinn fyrir að ljúka henni, ef það þyrfti að bæta við breytingartillögu til þess að laga þetta. (Gripið fram í.) Málið er í 3. umr., ég get ekki óskað eftir því að málið fari til nefndar af því að við erum að klára 3. umr. Ef 3. umr. er lokið er ekki hægt að mæla fyrir breytingartillögu. Ef hæstv. forseti gæti frestað umræðunni, ég veit ekki hvort hann þurfi einhverja leiðbeiningu hvað það varðar, til að missa ekki tækifærið að breyta því ef eitthvað hefur misfarist með gildistökuna, þá væri það vel þegið.