150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[19:00]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi tekjuþakið: Það er sett á til að stuðningurinn nýtist fyrst og fremst þeim hópum sem hann er ætlaður, tekjulágum einstaklingum. Markmiðið er að ná þeim hópum. Ég tel að allt í þessu frumvarpi sé löglegt, sama hvort það er tekjuþak, séreignarsparnaður eða annað. Hins vegar geta verið skiptar skoðanir um einstaka útfærslur í málinu og það er ekkert athugavert við það.

Varðandi það að frumvarpið sé komið seint fram liggur algerlega ljóst fyrir að við boðuðum mjög róttækar aðgerðir í húsnæðismálum og þegar verið er að vinna róttækar aðgerðir í húsnæðismálum er það auðvitað svo að sitt sýnist hverjum. Það eru ekki allir sammála um einstaka útfærslur á öllum málum. Þannig er það í lífinu sjálfu.

Hv. þingmaður nefndi ákveðna þætti. Ég hefði gjarnan viljað að þetta frumvarp hefði komið fram fyrr en það þarfnaðist samtals og frekari samvinnu. Þessi stóra aðgerð er hins vegar komin hingað inn og ég fagna því gríðarlega vegna þess að hún mun skipta miklu máli fyrir (Forseti hringir.) stóran hóp tekjulágra fyrstu kaupenda.