150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[19:47]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Við ræðum hér nýtt lánafyrirkomulag til tekjulægri hópa. Eins og ég nefndi í andsvari þurfa allir þak yfir höfuðið. Því er til mikils að vinna að málið sé vel unnið. Mörgu er ósvarað í þessu máli. Það varðar töluverða fjárhæð, eins og ég nefndi áðan, 3,7 milljarða kr., og þegar ríkissjóður þarf að sýna aðhald á öllum sviðum eru þetta aukin útgjöld árlega. Það þarf að fara vel yfir margt. Það kemur mér þess vegna verulega á óvart, herra forseti, hvað á að afgreiða málið á skömmum tíma. Það þarf einfaldlega að fá vandaðar umsagnir og álit frá flestum sem til þekkja í þessum málaflokki innan nefndarinnar til að starfið verði sem best og um allt varðandi málið verði sem best búið.

Frumvarpið veitir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun heimild til að veita fyrstu kaupendum sem hafa tekjur undir ákveðnum viðmiðunarmörkum svokölluð hlutdeildarlán. Lánin geta numið allt að 20% af kaupverði húsnæðis. Þau bera enga vexti og ekki er borgað af láninu fyrr en íbúð er seld. Hámarkslánstími hlutdeildarlána er 25 ár og að þeim tíma liðnum skal endurgreiða ríkinu lánið hafi íbúðin ekki verið seld. Markmiðið er að tekjulágir eignist sitt eigið húsnæði. Það er í sjálfu sér göfugt markmið og við í Miðflokknum tökum undir það.

Í greinargerð kemur fram að áætlaður fjöldi svokallaðra hagkvæmra íbúða sé á næstu árum á bilinu 340–710 íbúðir á ári. Í þeim tölum er gert ráð fyrir að hlutfall hagkvæmra, nýrra íbúða af heildarframboði sé á bilinu 18–26%. Í greinargerð frumvarpsins kemur einnig fram að heildarframboð nýrra íbúða árið 2018 hafi verið rúmlega 1.500 íbúðir og af þeim megi flokka 18%, alls 280 íbúðir, sem hagkvæmar. Í þessum tölum eru nýjar íbúðir í póstnúmerinu 101 undanskildar. Þær eru, eins og við þekkjum, oft dýrari og flokkast ekki sem hagkvæmar íbúðir. Í áætluninni er gert ráð fyrir að árlegt framboð nýrra íbúða muni aukast um 20–80% miðað við árið 2018. Umfangið er 3,7 milljarðar kr., rétt rúm 400 lán, eins og segir í greinargerðinni.

Það er ljóst að þetta úrræði er veigalítil aðgerð miðað við þörfina. Pólitíski þátturinn í þessu máli er að skattgreiðendur eiga að niðurgreiða vexti af lánum sem ráðherra, eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, ætlar að úthluta til tiltekins hóps fólks.

Gott og vel, þetta er ákvörðun ríkisstjórnarinnar og sjónarmið varðandi það hvort þetta sé hin eina rétta leið eru örugglega misjöfn. Þess vegna þarf að vanda alla vinnu við málið í nefndinni. Það verður að segjast eins og er að það eru ótrúleg vinnubrögð að ætla sér að afgreiða mál sem kostar 3,7 milljarða á nokkrum dögum eins og ekkert sé sjálfsagðara. Pólitíski þátturinn er sá að skattgreiðendur eiga greiða vexti í staðinn fyrir lántaka. Og hversu eðlilegt er það? Það er spurning sem menn verða að svara. Verið er að stuðla að eignamyndun ákveðins hóps í samfélaginu sem er fjármögnuð af skattgreiðendum. Ég nefndi það í andsvari við hæstv. ráðherra að við hefðum reynslu af svipuðu fyrirkomulagi, kannski ekki alveg eins og þessu en það var þegar Íbúðalánasjóður ákvað á sínum tíma, með sparisjóðunum og í samkeppni á markaði, að bjóða upp á viðbótarlán sem nefnd voru hattalán og reynslan af þeim var ekki góð.

Það vekur athygli og hefur komið fram í fréttum að ekkert er talað um hvað gerist ef verðmæti fasteignar lækkar. Það er alltaf talað um að ríkið hagnist ef íbúðin hækkar í verði og er fróðlegt að skoða dæmi sem tekið er í fréttatilkynningu á vef Stjórnarráðsins þar sem kaupverð fasteignar er 40 millj. kr. og hlutdeildarlán hljóðar upp á 20% af kaupverðinu eða sem samsvarar 8 millj. kr. Tíu árum síðar er eignin seld fyrir 50 millj. kr. og þá eru 20% endurgreidd nema hlutfallið reiknast nú af nýja fasteignaverðinu og nemur endurgreiðslan því 10 millj. kr. eða eins og segir í tilkynningunni: „Þannig nýtur ríkið sem lánveitandi einnig góðs af hækkun fasteignaverðs, ólíkt öðrum lánveitendum á húsnæðismarkaði.“

En hvað ef eignin er seld fyrir 30 eða 40 millj. kr.? Væri ekki eðlilegt að taka dæmi um það líka? Ég átta mig ekki á því, frú forseti, hversu margir geta nýtt sér þetta. Rætt hefur verið um tekjuviðmiðið og þessi ströngu skilyrði og hugsanlega geta fáir nýtt sér úrræðið þegar upp er staðið. Það þarf að fara vandlega yfir í nefndinni. Þess vegna segi ég enn og aftur að það að ætla sér að klára málið núna eru ótrúleg vinnubrögð. Við vitum ekki hversu margar fasteignir uppfylla þær kröfur að kaupandinn geti fengið þessi lán og skilyrðin virðast vera ströng.

Hæstv. ráðherra nefndi það í framsöguerindi sínu að verið væri að aðstoða barnafjölskyldur sem hefðu lítið milli handanna til að eignast sitt eigið húsnæði. En hvers lags húsnæði er í boði? Það er stóra spurningin. Hver er stefna meiri hlutans í borgarstjórn Reykjavíkur? Er hún ekki að byggja mjög litlar íbúðir, nánast hálfgerða skápa, sem eru yfir höfuð rándýrar? Minnstu íbúðirnar kosta allt að 30 millj. kr. Ég efast um að við setjum barnafjölskyldur inn í þessar íbúðir. Þetta þarf að fara yfir og það er fullkomlega eðlilegt. Ljóst er að byggingaraðilar sjá færi á því að byggja íbúðir fyrir þennan tiltekna markhóp. Þá er kannski búið að draga fólk í dilka, eins og var nefnt hér í umræðunni, sem mér hugnast ekki. Pólitíska spurningin er hvort það sé forsvaranlegt að aðilar geti keypt sér íbúð með 5% eiginfjárhlutfalli.

Það kemur örugglega upp umræða um tekjuviðmiðin og þá sem eru alveg á mörkunum. Í frumvarpinu er áhugavert ákvæði í 2. gr., sem verður 1. mgr. 29. gr. a í lögunum en ASÍ hefur gagnrýnt tekjuviðmiðið. Þarna er ráðherra veitt heimild í reglugerð til að kveða á um undanþágu frá tekjumörkum vegna sérstakra aðstæðna umsækjanda, óvenju hás framfærslukostnaðar eða til handa þeim sem misstu húsnæði sitt við efnahagshrunið og hafa ekki getað safnað sér fyrir útborgun. Það er lagt í hendur ráðherra og ráðuneytis að velja þá sem ættu að fá undanþágur. Hér erum við komin á vafasaman og erfiðan stað. Ég held að það verði að fara vel yfir það í nefndinni hvort þetta sé æskilegt.

Svo er það valdið sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fær. Hún þarf að samþykkja íbúðir sem hagkvæmar íbúðir. Þá erum við að mínu mati komin í svolítið ráðstjórnarfyrirkomulag.

Álitamálin eru því mörg, frú forseti, og mörgu er ósvarað. Ég held að það þurfi að fara mjög vandlega yfir málið, eins og ég hef lagt áherslu á. Ég ítreka þó að það er mikilvægt að finna góða lausn fyrir þá sem hafa lengi þurft að búa í leiguhúsnæði og vilja skiljanlega eignast sitt eigið húsnæði. Það er hins vegar allt annað mál hvort þetta sé akkúrat leiðin og réttu skilyrðin. Það þarf að fara vandlega yfir þetta og fá álit og umsagnir. Við erum öll sammála um að auðvitað eigi sem flestir að geta eignast þak yfir höfuðið. Menn þurfa líka að leggja sig fram. Allir þurfa að reyna að safna einhverju en fólki gengur það misjafnlega þegar tekjurnar eru lágar. En ég hef ákveðnar efasemdir um það sem lagt er upp með hér, skilyrðin o.s.frv.

Innlegg mitt að lokum er að fara verður vandlega yfir málið í nefndinni og skoða öll álitamál sem liggja fyrir. Það er ekki forsvaranlegt að flýta sér í svona máli. Ríkisstjórnin hefði hæglega getað komið mun fyrr með málið inn í þingið svo að það gæti fengið vandlega umfjöllun. Þetta kostar ríkissjóð allt upp í 4 milljarða á ári. Það eru töluverðir peningar þegar ríkissjóður stendur frammi fyrir miklum halla. Það skrifast á ríkisstjórnina hversu seint málið er fram komið og þess vegna er mikilvægt að menn átti sig á því að það þarf að gefa því góðan tíma og svara öllum álitaefnum.