150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[20:08]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir ágæta ræðu. Þingmaðurinn varpaði fram mörgum áhugaverðum spurningum í sambandi við þetta mál. Ég tel að grundvallarhugmyndin á bak við þetta mál sé góð, hér er leitast við að leysa vanda sem við höfum séð mjög lengi í samfélaginu og þurfum að ráða bót á. Það hefur náðst samkomulag við aðila vinnumarkaðarins um að leysa það að einhverju leyti með þessum hætti. Það kom raunar fram fyrir rúmu ári, í febrúar í fyrra, eitthvað svoleiðis, þegar húsnæðishópur á vegum ráðuneytisins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem þá hét Íbúðalánasjóður, og verkalýðshreyfingarinnar skilaði áliti sem var mjög gott og þessi leið var eitt af því sem þar var talað um.

Það sem þingmaðurinn velti upp var að frumvarpið kynni að gera það að verkum að fólk gæti kannski ekki valið sér búsetu. Þá á þingmaðurinn væntanlega við að nýjar íbúðir eru aðallega byggðar á jöðrunum eða fjær miðjunni og það kunni að leiða til þess að fólk þurfi að flytja sig um set ef það ætlar að komast inn í þetta kerfi. Mig langaði kannski að inna eftir því hvort þingmaðurinn sjái einhverja góða lausn á þessu eða einhverja aðra lendingu en kemur fram í frumvarpinu. Ég er sammála þingmanninum um að þetta sé úrlausnarefni sem við þurfum að reyna að ná utan um.