150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[20:13]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson svarið. Ég ætlast auðvitað ekki til þess að hv. þingmaður eða aðrir í salnum hafi öll svör á reiðum höndum. En samtalið er mikilvægt eins og þingmaður kom inn á og að leiða sig að niðurstöðu. Ég held að við getum verið algerlega sammála um það. Þingmaðurinn nefndi þenslu á markaði, hvort einhver hætta væri á því. Nú veit maður það náttúrlega ekki, hér er gert ráð fyrir, ef ég man rétt, um 400 íbúðum á ári. Kannski er það ekki svo mikið að það hafi áhrif. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því. Ef þær væru allar byggðar í sama sveitarfélaginu kynni það að hafa þensluáhrif. En við gerum ráð fyrir að þetta dreifist eitthvað.

Það var annað sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni, ég veit ekki hvort maður á að kalla það völd Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eða áhrifamátt hennar. Það hafa fleiri þingmenn í dag komið inn á ákvörðunarvald stofnunarinnar, til að mynda til að ákveða vexti ef tekjumörk breytast. Þetta er vangavelta. En er það í sjálfu sér svo frábrugðið því þegar fólk tekur lán með breytilegum vöxtum? Fólk tekur lán með breytilegum vöxtum og það veit að ef aðstæður breytast, ekkert endilega eigin aðstæður heldur aðstæður á markaði, breytast vextir. Þarf þetta að vera svo alvarlegt ef fólk er í rauninni með þetta algjörlega fyrir framan sig og það er útskýrt þegar það gengur inn í þetta kerfi og til samninga? Þarf þetta að vera mikið vandamál?