150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[20:17]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög áhugavert frumvarp að mörgu leyti. Ég sé að markmiðið með því er mjög gott en ég er að reyna að púsla saman tölunum og það með stuttum fyrirvara því að þetta er ekki gamalt frumvarp á þingi. Það er ákveðið hámark fyrir einstaklinga, tekjur upp á 630.000 kr. Þá er viðkomandi undir miðgildistekjum ef miðað er við einstakling, en 880.000 fyrir hjón eða þau sem verið hafa í sambúð síðastliðna 12 mánuði. Svo bætast við 130.000 fyrir hvert barn og ungmenni undir 20 ára. Þetta eru tekjuviðmiðin sem vísað er til varðandi hlutdeildarlán upp að 20%. Hægt er að fara upp í 30% hlutdeildarlán fyrir fólk sem er með enn lægri tekjur, eða upp á 418.000 kr. á mánuði fyrir einstakling og 585.000 kr. fyrir hjón eða sambúðarfólk. Það er að vísu sagt hér að það sé samanlagt fyrir hjón en ekki hjón og sambúðarfólk, eins og sagt var um þá sem eru tekjulægri. Það þarf kannski að laga það í meðförum nefndarinnar. Það er gott að huga að því.

En þetta eru tekjuviðmiðin sem sett eru sem skilyrði fyrir því að fá hlutdeildarlán. Þegar maður byrjar frá þeim stað og fikrar sig síðan upp í aðrar takmarkanir sem settar eru, að viðkomandi verði að sýna fram á að geta ekki fjármagnað kaup á íbúðarhúsnæði nema með hlutdeildarláni, þýðir það í rauninni að viðkomandi stenst ekki greiðslumat eða er ekki með þessi 20, 25, 30% eða innborgunina sem lán krefjast alla jafna. Þannig að annaðhvort þarf það að vera þannig að viðkomandi standist ekki greiðslumat, en standist það þegar hann er með hlutdeildarlán, eða að hann hefur einfaldlega ekki það stofnfjármagn sem til þarf og er undir þessum tekjumörkum.

Við bætist hins vegar að meðalafborgun fasteignaláns má ekki vera meira en 40% ráðstöfunartekna. Þegar búið er að taka ráðstöfunartekjur af lægri launum, og jafnvel þótt það væru miðgildislaun, þá er ekkert rosalega mikið eftir. Það takmarkar mjög mikið hversu dýr viðkomandi íbúð getur verið, sérstaklega þegar enn bætist ofan á að lánstíminn er bara 25 ár, sem hækkar þá enn afborgunarmöguleikana á mánuði fyrir það lán. Ofan á allt þetta, ofan á þessi lágu laun, þessar lágu ráðstöfunartekjur sem fólk er með á þessu launabili þarf alla vega að leggja fram 1–2 milljónir, í rauninni 2 milljónir, miðað við forsendurnar sem gerðar eru í greinargerðinni, fyrir kaupverði, þ.e. að leggja fram sem nemur að lágmarki 5% kaupverðs.

Skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar kemur aðeins á móti þessu, en séreignarsparnaður er einmitt frekar lítill hjá tekjulágum. Sú aðferð hefur verið gagnrýnd vegna þess að það gagnast frekar þeim sem eru tekjuháir en tekjulágir. En allt telur í þessu því að skilyrðin sem sett eru varðandi tekjuviðmiðin, varðandi ráðstöfunartekjurnar, varðandi það að geta ekki fjármagnað kaup nema með hlutdeildarlánum, ekki án þeirra, og með því að þetta verði að vera húsnæði sem þarf að vera samþykkt af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, að þetta sé nýtt húsnæði, að lánin séu ekki til lengri tíma en 25 ára — það eru líka lán sem eru á undan í veðröðinni þannig að það takmarkar enn aukafjármögnunina, heildarfjármögnunina. Það er ekki bara bundið við hlutdeildarlánið sem hækkar afborganir á mánuði, sem kemur þá upp á móti 40% ráðstöfunartekna sem þetta má ekki fara umfram. Það er vissulega gott viðmið að hafa til að það sé svigrúm fyrir annan kostnað hjá fólki. En þegar ég tel upp þessar takmarkanir miðað við tekjuviðmiðin enda ég með mjög fáa einstaklinga, nema kannski þegar ég bæti við börnum. Þá bætist við fjárhæð upp á 130.000 kr. fyrir hvert barn sem er leyfilegt gagnvart tekjum. En það spilar dálítið á móti því að það er ákveðinn kostnaður við að vera með börn og tekjurnar koma ekkert endilega á móti og ráðstöfunartekjur skerðast þá vegna þess að viðkomandi er með börn og stuðningskerfin okkar með barnabótastyrkinn o.s.frv. ná ekki endilega þeim ráðstöfunartekjum til baka. Það ættu allir að þekkja sem hafa eignast krakka að það er tvímælalaust meiri kostnaður þar á bak við en styrkjakerfin bæta upp alla jafna fyrir langflesta, hvað þá þeim sem eru á þessum mörkum tekjuviðmiða.

Spurningarnar sem ég legg upp með fyrir þingið eru: Hversu margir eru að baki þeim greiningum sem ráðuneytið hefur gert? Ráðuneytin hafa haft ansi langan tíma til að fara í gegnum tekjusöguna og séð á hvaða tekjubili fólk er o.s.frv. og hverjir eru þar, hversu margir eru húsnæðiseigendur, hvaða tekjubil þetta eru o.s.frv., sem kemur með töluna 410 árlega, sem er fjöldinn sem þetta takmarkast líka við.

Mér finnst áhugavert að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verði að segja nei þegar hún er búin með fjárheimildirnar sem koma af fjárlögum því að við erum með álíka fjárheimild á öðru sviði sem eru kvikmyndastyrkir. Þar er bara hægt að koma og taka upp kvikmynd og þar er borgað til baka. Það er endalaust fjárrennsli á móti. Jú, vissulega er verið að borga inn, þ.e. kvikmyndafyrirtækin koma og greiða fyrir framleiðslu og fá endurgreiðslu til baka. En þar er gefin fjárheimild fyrir endurgreiðslu kvikmyndastyrkjanna sem fara má fram yfir eins og ekkert sé. Það var merkilegt og nokkuð sem þarf að skoða á sama hátt. Mér finnst þess vegna einkennilegt að það þurfi að segja það sérstaklega að ekki megi fara umfram fjárheimildir þegar það er þumalputtareglan að ekki má fara umfram fjárheimildir, en það er samt er það alltaf gert. Og við gerð fjáraukalaga er aftur sagt: Æi, við eyddum aðeins of miklum peningi. Við tókum bara ekki eftir því fyrr en í desember.

Mér finnst það dálítið áhugavert því að markmiðið með þessu er væntanlega að leysa eitthvert ákveðið vandamál varðandi fjármögnun við að kaupa eigið húsnæði og væntanlega viljum við leysa allt það vandamál. Ef maður skoðar forsendurnar á svipaðan hátt og kvikmyndastyrkinn þar sem kvikmyndastyrkurinn er endurgreiðsla á móti innkomu þá töpum við ekki á því sérstaklega. Og ef við skoðum það hafa lán vegna steypu aldrei verið slæm fjárfesting til langs tíma á Íslandi, þannig að það er ekki eins og hið opinbera tapi í rauninni á fjárfestingum eins og þessum, þó að það geti tvímælalaust haft ákveðin hliðaráhrif varðandi eftirspurnar- og framboðshluta ef allt í einu koma mun fleiri og kaupa, þá ætti það að hafa hækkandi áhrif á íbúðaverð, nema það séu akkúrat nægilega margar íbúðir sem koma á móti þeirri eftirspurn, því að annars væru þessir einstaklingar á leigumarkaði. Þetta er ákveðin hringrás, ákveðið kapphlaup um hvort nógu margar íbúðir fáist, hvort það næst að uppfylla alla samningana. Það er dálítil jafnvægislist sem virðist eiga að vera í þessu sem ég sé ekki. Ég sé loforðið um hana, ég skal orða það þannig. En miðað við tekjuviðmiðin, miðað við skilyrðin sem koma á móti þá sé ég ekki allan þann fjölda sem þetta á að ná til.

Ég myndi því vilja fá svör við því í nefndarvinnunni hvar í tekjutíundunum fólkið er sem fellur undir þetta, hvaða þjóðfélagshópar ná inn á þetta og þar fram eftir götunum. Þarna væri mjög þægilegt að vera með langtímaspána sem gera á samkvæmt ársskýrslu ráðherrans, sem sagt langtímaskýrsluna sem ekki á að koma fram fyrr en í lok ársins, þar sem maður getur séð þróunina á lýðfræðilegum stærðum í framtíðinni. Þarna er væntanlega fólk á fátæktarmörkum og jafnvel undir þeim, og maður hugsar: Leysir þetta vandamálið fyrir þá sem eru á fátæktarmörkum? Munu þeir nokkurn tíma ná upp í þessi skilyrði? Jafnvel varðandi 5% kaupverðsins. Ef ekki, af hverju þá ekki? Viljum við ekki einmitt leysa vandamál þess hóps, þ.e. fátækt, til að það geti komið inn í? Og hvernig færa önnur úrræði ríkisstjórnarinnar okkur í þá átt að jafnvel hlutdeildarlánin eru ekki nauðsynleg af því að við erum ekki með fólk á þessum jaðarsvæðum varðandi tekjur? Út frá því sjónarhorni horfir maður á lífskjarasamningana sem tilraun til að stíga í þá átt að ná fólki upp úr fátækt og inn í eignakerfið af því að við erum með þannig lífeyrissjóðakerfi að ef fólk á ekki skuldlaust þak yfir höfuðið þegar það fer á lífeyri þá er það bara í vondum málum af því að það að eiga þak yfir höfuðið er hluti af þeim viðmiðum sem við gerum varðandi lífeyrissjóðsgreiðslur. Þær eiga ekki að standa undir greiðslu af húsnæði.

Þannig að ég hlakka til að sjá þessa útreikninga og þessar sviðsmyndir, hvað þær dekka og þær stærðir sem þar eru undir og þá sérstaklega fólkið sem lendir á jaðrinum. Nær þetta alveg niður? Ef ekki, hvaða önnur úrræði eru fyrir fólkið sem er á jaðrinum, sérstaklega það sem er tekjulágt? Og hvernig á þróunin að vera í framhaldinu til þess að gera svona stuðning úreltan eða óþarfan sem slíkan?

Að lokum varðandi andsvarapælingar fyrir ræðu framsöguræðu ráðherra hefur verið talað um þetta frumvarp sem hefur verið ansi lengi fast í ráðuneytunum. Ráðherra svaraði í andsvörum að það væri vegna þess að ráðuneytin þyrftu að hafa ýmiss konar samráð o.s.frv. Það fer tvennum sögum af því hvernig það samráð var og hversu fast frumvarpið var í fjármálaráðuneytinu því að það á náttúrlega að fá mat á áhrifum frumvarpsins á tekjur ríkissjóðs og þess háttar sem farið er yfir þarna og talað um 4 milljarða á ári sem ríkið þyrfti að fjárfesta í steinsteypu fyrir ákveðinn tekjuhóp.

Mig langar að vita hversu mikið frumvarpinu var breytt í fjármálaráðuneytinu og hvað það var langan tíma í vinnslu þar. Ég velti fyrir mér að hve miklu leyti þetta er frumvarp fjármálaráðherra, frekar en endilega félagsmálaráðherra.