150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[20:55]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa ræðu vegna þess að ég hef setið hér og fylgst með umræðunni og ég á dálítið erfitt með að skilja hvað er á ferðinni. Ég vil byrja á því að velta upp áhyggjum mínum af því að þetta mál, sem mér finnst snúa meira að málefnum efnahags- og viðskiptanefndar heldur en nokkurn tíma velferðarnefndar, rati inn í velferðarnefnd.

Málið er auðvitað seint fram komið og við þekkjum þá sögu. Hv. þingmaður ræddi nokkur atriði sem hann hafði áhyggjur af sem endurspegla áhyggjur mínar. Mig langar að fá hann til að útskýra aðeins betur hvað hann átti við með eignamyndun sérstaklega, bara þannig að ég skilji það. Nú er ég að fara að fjalla um þetta mál á mánudaginn og langar að geta skilið það upp og niður og allt til enda.

Hann kom líka inn á annað sem mér finnst mjög áhugavert. Það er í sambandi við kröfur á verktaka. Hann taldi upp mjög góða hluti, t.d. lóðaverð og hagkvæmni og allt þetta. Allt er opið. Eins og staðan er í dag þurfum við að efla okkur á Íslandi, margir iðnaðarmenn þurfa vinnu og slíkt, og mig langar að vita hvort það væri gáfulegt að festa það inn að þetta væri íslensk framleiðsla til þess að slá nokkrar flugur í einu höggi. Ég ætla að láta þetta duga í fyrra andsvari.