150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[20:57]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Þó að ég sem nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd vilji fá sem flest mál til mín þá geri ég ekki kröfu til þess að þetta mál verði þar. (Gripið fram í.) Ég held að þetta eigi nefnilega heima í velferðarnefnd og ég hygg að margir séu glaðir yfir því. (Félmrh.: Þetta var eina vitið sem þú sagðir.)

Eignamyndun í mínum huga er bara það eigið fé sem bundið er í húsinu þínu og auðvitað er það rétt sem haldið er fram í greinargerð frumvarpsins að eignamyndunin er hraðari ef lánstíminn er styttri. Það segir sig sjálft. En ef menn ætla að fylgja þeirri röksemdafærslu þá er eignamyndun miklu hraðari með tíu ára láni heldur en 25 ára. Það er alveg rétt. En það er hins vegar líka alveg ljóst að fólk sem leggur af stað með 40 ára lán með alla framtíðina fyrir sér mun auðvitað taka ákvarðanir í framtíðinni sem geta breytt því, m.a. stytt lánstímann o.s.frv., greiða inn á höfuðstól lána eins og algengt er, m.a. með séreignarsparnaði, líka eftir því sem tekjur hækka o.s.frv.

Ég ætla hins vegar að vara aðeins við því, ef ég hef skilið hv. þingmann rétt, ef hún var að tala um framleiðslu á einingahúsum og miða þá við íslenska framleiðslu. Ég er ekki alveg viss um að það sé skynsamlegasta ráðstöfunin, alveg örugglega ekki fyrir þá sem kaupa vegna þess að ég held að við eigum einmitt að auka framboðið af því. Ég minni á að þegar menn ákváðu hér góðu heilli fyrir nokkrum áratugum að leyfa innflutning á erlendu sælgæti höfðu þeir uppi stór orð um að íslensk sælgætisframleiðslan myndi drepast. Hvað gerðist? Hún hefur aldrei verið blómlegri.