150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[21:28]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég vona að hv. velferðarnefnd fari yfir málið út frá þessu sjónarhorni, ekki bara út frá sjónarhorni verktaka og atvinnuskapandi aðstæðna heldur einnig út frá þörfum fjölskyldna sem þurfa á hlutdeildarlánum að halda. Ég vona að nefndin finni einhverja góða lausn á þessu, bæði að huga að landsbyggðinni og að mismunandi þörfum fólks þegar kemur að húsnæði og öllum aðstæðum.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji að það náist að vinna þetta mál á þeirri starfsáætlun sem við höfum sett okkur í þinginu. Það eru eftir aðeins sex þingfundadagar og einn nefndadagur, ef ég hef talið rétt. Ég spyr hvort hún hafi ekki áhyggjur af því að tíminn sé of knappur til að vinna þetta mál á þeim fáu dögum sem eftir eru.