150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[21:46]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður veit vel að ég þarf ekki að gera neina kröfu innan umhverfis- og samgöngunefndar um að hafa rétt fyrir mér, þetta kemur bara sjálfkrafa upp úr mér án þess að nokkur krafa fylgi því. Að öllu gamni slepptu held ég að hv. þingmaður verði fyrir örlitlum vonbrigðum á eftir þegar hann horfir á alla ræðu mína. Ég styð vissulega það markmið að fólk sem þess óskar eignist eigið húsnæði, annað væri það nú, en ég ræddi líka um séreignarstefnuna og að við værum búin að ákveða að beina öllu fólki þangað og að það væri eitthvað sem þyrfti kannski frekari umræðu. Í það minnsta tel ég að þau sem kjósa af einhverjum ástæðum að eiga ekki húsnæði, og ég tók t.d. sjálfan mig sem dæmi um það, þurfi að búa við mun meira öryggi en þau gera nú. Hluti af ræðu minni fór í að brýna hæstv. ráðherra um að koma með frumvarp um að auka réttarstöðu leigjenda af því að ég er talsmaður vals einstaklingsins, kannski öfugt við hv. þingmann. Ég vil að einstaklingurinn hafi val um annaðhvort að leiga og búa þá við öryggi og geta jafnvel verið áratugum saman í sömu íbúð, fjölskyldan gæti þess vegna tekið við eða hvernig sem það væri, eða þá að kaupa. Ég er líka talsmaður þess að fólk hafi val um að setjast upp í bíl og keyra á milli staða eða ganga inn í hina fögru borgarlínu, svo dæmi sé tekið.