150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja.

814. mál
[16:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi seinni spurninguna fyrst þá var mikið rætt hvort þetta 75% viðmið væri það eina rétta. Um það er auðvitað ekkert hægt að fullyrða. Hefði verið eðlilegra að það væri 60, 65%? Einhvers staðar varð að setja þessi mörk og niðurstaðan varð sú að þetta væru eðlileg mörk með hliðsjón af þeim aðgerðum öðrum sem gripið hefur verið til.

Síðan ollu einyrkjarnir okkur miklum heilabrotum. Við í nefndinni bættum stöðuna talsvert frá því sem gert var ráð fyrir í umfjöllun okkar. Í fyrsta lagi að setja ekki skilyrði um að það þyrftu að hafa verið greidd laun til tveggja heldur bara eins eða fleiri. Síðan að einyrkjar féllu undir þetta svo fremi sem þeir væru lögaðilar, þ.e. væru með fyrirtæki utan um sinn rekstur. Niðurstaðan varð sú vegna einyrkja sem væru að reka sig á eigin kennitölu samhliða heimilisrekstri að aðferðirnar sem hægt væri að beita væru svo flóknar og þetta yrði svo flókið í framkvæmd að það væri eiginlega ógjörningur. Það er þá tvennt sem nefndin gerir, þ.e. að vísa til annarra hugsanlegra aðgerða eða úrræða fyrir einstaklinga af þessu tagi og jafnframt að beina því til ráðherra að taka það til athugunar hvort hægt væri að hlaupa undir bagga með þessari gerð rekstrar með einhverjum öðrum hætti. En frumvarpið nær ekki utan um áhyggjurnar hvað varðar nákvæmlega þessa gerð og verður að vísa til annarra úrræða og sömuleiðis nánari skoðunar ráðherra.