150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar um tillögu til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun og um samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034, þ.e. 15 ára samgönguáætlun. Ég mun mæla fyrir þeim tveimur eins og hæstv. forseti fór yfir. Ég mun kappkosta að fara yfir meginefni nefndarálitsins sem er á 29 blaðsíðum auk fylgiskjala með töflum en það mun ekki gefast tími til að fara yfir öll atriði þessa álits enda samgöngumálin víðfeðm og fjalla um ansi margt. En í upphafi vildi ég nefna það að í samgönguáætlun eru fullt af markmiðum og áherslum og unnið út frá hinum ýmsu áætlunum hins opinbera í samgöngum. Undir það fellur vegakerfið, allar hafnir landsins og flugvellir, sjóvarnir sem og almenningssamgöngur á lofti, láði og legi, þannig að það er af mörgu að taka, fyrir utan hin ýmsu stjórnsýsluverkefni og má þar nefna umferðaröryggisáætlun, ýmsar rannsóknir og greiningar og annað slíkt.

Ég vil byrja á því að fara aðeins yfir vinnu nefndarinnar og þakka fyrir gott samstarf í nefndinni og vil líka þakka starfsfólki Alþingis, sérstaklega nefndarritaranum okkar, kærlega fyrir góða vinnu og gott samstarf, þetta gekk mjög vel. Ég held að ég geti nánast fullyrt hér að almennt er nefndin mjög sammála í þessum málaflokki og er með mjög svipaðar áherslur þó að það séu ekki allir á nefndarálitinu, en það kom í ljós alveg undir lokin. Ég tel því að nefndarmenn séu nálægt hver öðrum í þessu og með svipaðar áherslur.

Málið var lagt fram á Alþingi 30. nóvember 2019 og tekið til umræðu í desember þannig að við höfum haft málið í töluverðan tíma til vinnslu í nefndinni og hefur margt breyst og gerst frá þeim tíma. Í því ljósi vil ég byrja á að útskýra hvernig við sjáum þetta fyrir okkur. Það er gert ráð fyrir því að samgönguáætlun sé fullfjármögnuð og í fullu samræmi við fjármálaáætlun sem er samþykkt til fimm ára í senn. Það sé fullt samræmi þarna á milli. Svigrúm Alþingis og nefndarinnar til að gera breytingar er innan þess ramma sem fjármálaáætlun og fjárlög hverju sinni gefa okkur og miðaðist vinna nefndarinnar við það.

Við fengum margar umsagnir og fengum marga gesti til að fara yfir þetta viðamikla mál og það er algerlega ljóst að orðin er mikil uppsöfnuð þörf í samgöngum á Íslandi. Það er margt sem skapar þá þörf. Margir vilja meina að við höfum verið í langan tíma eftir á í uppbyggingu samgöngukerfisins og sumir hafa nefnt allt að áratug og gerðar hafa verið skýrslur um að uppsöfnuð þörf sé komin upp undir 400 milljarða. Svo hefur margt gerst. Atvinnulífið þróast, byggðir þróast og það byggjast upp fjölbreyttari atvinnuvegir sem eru víðar um landið. Ferðaþjónustan verður einn af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar og annað slíkt. Það breytir áskorununum og gerir þær fjölbreyttari og eykur á þörfina fyrir uppbyggingu samgönguinnviða og allar tegundir þeirra.

Við sjáum líka þá þróun, samhliða breyttum atvinnuháttum, að búseta í dreifbýli er að aukast og jafnvel fleiri skólabörn sem þarf að keyra um langan veg í skóla, það gerist líka með sameiningu skóla, sameiningu sveitarfélaga. Það er svo margt sem hefur áhrif á þörf fyrir uppbyggingu og þjónustu í samgönguinnviðum, hvaða uppbygging sem það er eða snjómokstur eða tíðni í áætlunum í almenningssamgöngum og annað slíkt. Þetta þarf allt saman að hafa í huga og kom mikið ákall um þetta fram í nefndinni. Þá skal þess líka getið að það er ekki nema rúmt ár síðan við samþykktum síðustu samgönguáætlun. Þá kom þessi krafa skýrt fram. Það er ástæðan fyrir því að við erum að fjalla aftur um samgönguáætlun núna. Nefndin lagði þá fram á Alþingi, til samgönguyfirvalda, visst verkefni til að útvíkka möguleika til fjárfestinga í samgönguinnviðum. Það var margt sem þurfti að bæta við til að hægt væri að fara hraðar í uppbyggingu, bæði til að auka fjármögnunina og búa til heildarsýn. Við gerðum þá kröfu að samgönguáætlun kæmi fyrr fram endurskoðuð miðað við þær forsendur.

Það sem hefur gerst síðan þá er að í fjármálaáætlun, sem var samþykkt 2018 og átti að taka gildi frá og með árinu 2019, voru samþykktir til þriggja ára auknir 5,5 milljarðar í samgönguframkvæmdir. Í fjármálaáætlun sem var samþykkt vorið 2019 var samþykkt að bæta 4 milljörðum árlega næstu fimm árin í samgönguinnviði, þannig að það er töluverð aukning. Svo kom þingsályktunatillaga og fjáraukalög núna á þessu þingi, í mars sl., frekar en apríl, þar sem Alþingi samþykkti 6,5 milljarða aukalega til samgönguframkvæmda. Þetta er sú viðbótarfjármögnun sem hefur komið inn og hefur verið ráðstafað í samgönguáætlun og hluti af þessu eru breytingartillögur sem við leggjum til núna vegna þingsályktunar nr. 28/150, um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

En það er fleira sem búið er að taka tillit í endurskoðaðri samgönguáætlun sem við fjöllum um núna. Það er búið að bæta við áhersluatriðum úr nýrri flugstefnu, það eru komin áhersluatriði úr nýrri stefnu í almenningssamgöngum. Síðan þá hefur líka verið gerður samgöngusáttmáli fyrir höfuðborgarsvæðið, þar kemur einnig aukið fjármagn í samgönguinnviðina og tekur á hluta af þeim áskorunum sem ég fór yfir áðan. Greiningu á jarðgangakostum á Austurlandi hefur verið bætt við og greiningu á Sundabraut hefur verið bætt við. Hér er einnig tekið á tillögum að flýtiframkvæmdum í grunnneti vegasamgangna sem samvinnuverkefnum og ég vil geta þess að nú er lagafrumvarp til meðferðar í umhverfis- og samgöngunefnd sem kemur einmitt inn á þessi samvinnuverkefni. En allt spilar þetta saman og er allt til þess gert að fleyta okkur fram í þeirri mikilvægu innviðauppbyggingu sem samgöngur eru. Þannig að þetta er gríðarlega mikilvægt.

Helstu breytingartillögur sem við leggjum fram núna varðandi þá samgönguáætlun sem lögð var fram í nóvember sl. eru til að bregðast við og uppfæra samgönguáætlun miðað við fjárfestingarátak fyrir 2020 sem ég nefndi áðan og svo nokkrar áherslubreytingar sem við gerum við markmiðskafla samgönguáætlunar. Ég ætla að renna örstutt yfir það.

Við leggjum til, varðandi markmið um greiðar samgöngur, að unnin verði stefna í hafnamálum og framtíðarsýn mótuð um samspil hafna við aðrar samgöngur. Við teljum það gríðarlega mikilvægt. Það eru mörg mikilvæg og stór hafnaverkefni sem eru annaðhvort í burðarliðnum eða er ósk um en koma hvergi fram í stefnum eða áætlunum til framtíðar þannig að hægt sé að bregðast við og undirbúa þau. Við leggjum líka til þá breytingu við kaflann um markmið um greiðar samgöngur að unnið verði að greiningu á flugvellinum og þeir flokkaðir miðað við hlutverk þeirra. Þar viljum við leggja miklu meiri áherslu á mismunandi notkun á flugvöllunum og að hlutverk þeirra sé skýrt þannig að hægt sé að reka flugvellina og setja fjárframlög og markmið á þá miðað við þá notkun sem á að vera.

Við kafla um markmið um öryggi í samgöngum leggjum við til að skráning samgönguslysa og annarra atvika verði bætt og samræmd og haldið verði utan um skráningarnar rafrænt. Það hefur skort á þetta, að okkur finnst, það eru svo mörg atvik í umferðinni sem skila sér aldrei í samræmda slysaskráningu og úr því þarf að bæta til þess að sé hægt að takast betur á við svarta bletti eða uppákomur í umferðinni til að fækka slysum í umferðinni almennt. Við þessi markmið leggjum við líka til að greindar verði leiðir til að tryggja sem best leiðréttingartækni vegna gervihnattaleiðsögu um allt land, svo sem með aðild Íslands að nýrri geimáætlun Evrópusambandsins og að viðræður verði hafnar við framkvæmdastjórn ESB um stækkun þjónustusvæðis EGNOS svo það nái yfir Ísland. Þetta er gríðarlega mikilvægt með tilliti til flugöryggis og var mikið rætt fyrir nefndinni og víðar og mikilvægt að þetta markmið komi inn.

Hvað varðar markmið um hagkvæmar samgöngur bætist þar við nýr töluliður um að unnin verði langtímastefna um uppbyggingu jarðganga sem stuðli að faglegri forgangsröðun framkvæmda. Það er gríðarlega mikilvægt að við fáum haldbærar upplýsingar, eins og um hafnirnar, um hvaða jarðgangaverkefna fólk væntir og þar þarf að gera ýmsar rannsóknir, jarðfræðirannsóknir, um þjóðhagslegan ábata og samfélagslega greiningu og svo framvegis. Þetta er ein af þeim áætlunum sem við leggjum til bætast við þær áætlanir sem þegar eru komnar.

Við gerum tillögur um viðbót við markmið um jákvæða byggðaþróun. Í fyrsta lagi að reglugerð um héraðsvegi verði endurskoðuð með tilliti til byggðasjónarmiða og breyttra atvinnuhátta, einkum skil vegflokka og viðmið um uppbyggingu, viðhald og afskráningu héraðsvega af vegaskrá. Einnig verði unnin greining á stöðu landsvega utan stofnvegakerfisins og þar metin þörf á úrbótum til lengri tíma. Þetta tengist mikið ferðaþjónustunni og nýtingu miðhálendisins og þjóðgörðum og öðrum friðlýstum svæðum og annað slíkt. Hvaða aðgengi ætlum við að hafa og hvernig ætlum við að búa um þetta? Það verður að segjast að í dag er þetta mikill frumskógur, það eru mismunandi vegflokkar á hálendinu og að hálendinu og það eru mismunandi veghaldarar og mismunandi ferli, hvort vegunum sé yfir höfuð sinnt eða ekki og deildar meiningar um hvernig þeir eigi að vera úr garði gerðir.

Þetta eru helstu breytingarnar sem við gerum. Það mun ekki gefast tími hér til að fara yfir allar breytingar sem hafa orðið og þær sem við leggjum til, en þá vil ég nefna að aðrar þær tillögur sem við erum að gera eru byggðar á vinnu nefndarinnar og þessu mikla ákalli um uppbyggingu samgönguinnviða þar sem samgönguáætlun þarf að fylgja fjármálaáætlun eins og ég kom inn á áðan. Nú er komin sú staða upp vegna Covid og frumvarps sem við vorum að samþykkja hér rétt áðan, að fjármálaáætlun, sem við bjuggumst við að yrði lögð fram núna í vor og við værum að samþykkja á þessum tímapunkti, hefur frestast fram til 1. október. Við getum ekki lagt til neinar raunbreytingar á samgönguáætlun núna af því að við vitum ekki hvort það verður fjármagn til þess eða ekki. Við þurfum því að bíða fram á haustið til að sjá hvaða fjármagn verður til ráðstöfunar í uppbyggingu samgönguinnviða.

Það hefur verið rætt um að lagt verði fram fjármagn allt að 60 milljarðar í fjárfestingarátaki stjórnvalda til þriggja ára, 2021–2023, og má vænta að stór hluti af því fari í samgönguinnviði miðað við þá reynslu sem við höfum núna frá títtnefndri fjárfestingaráætlun fyrir 2020, sem ég nefndi áðan. Við förum því þá leið að byggja á vinnu nefndarinnar, setja upp forgangsröðun nefndarinnar og tillögur hennar um hvernig auknum fjármunum til samgönguinnviða verði ráðstafað á þessum þremur árum, 2021, 2022 og 2023. Það eru fylgiskjöl með nefndarálitinu. Þar er hægt að sjá, gangi fjármögnun eftir samkvæmt þessum tillögum í fjármálaáætlun í haust, að þá mun umhverfis- og samgöngunefnd leggja fram breytingartillögu við samgönguáætlun sem er til samræmis við þær áherslur sem er að finna í þessu nefndaráliti og miðað við fylgiskjöl og þær töflur sem eru þar og farið í gegnum það að þannig sé skynsamlegast að vinna þetta út frá þingsköpum og eðli máls. Ég vona að þetta sé eins skýrt og hægt er að hafa.

Þarna eru mörg mikilvæg verkefni. Það er mjög mikilvægt að þetta gangi eftir. Og hvaða áherslur höfum við lagt í þessu? Áætlunin er að fylgja eftir þeim verkefnum sem eru hafin eða eru í hönnun og undirbúningi núna, eru ýmist komin af stað eða eru að fara af stað, í framhaldi af fjárfestingaráætluninni fyrir 2020, að það verði samfella í þeim. Svo eru þarna líka önnur mikilvæg innviðaverkefni eins og áframhaldandi átak í uppbyggingu tengivega sem dæmi, sem er mikið byggðamál og atvinnumál. Svo eru stórframkvæmdir inni í þessu sem tengjast höfnunum, eins og t.d. uppbygging hafnarinnar í Þorlákshöfn til að geta tekið á öruggan hátt á móti fraktflutningum og farþegaferjum frá meginlandi Evrópu og annað slíkt. Varðandi flugvellina er mikilvægt að klára uppbyggingu á flughlöðum, bæta öryggi varaflugvalla og margt fleira sem má þar fara yfir.

Allt er þetta undir markmiðum okkar um greiðari samgöngur, öruggari samgöngur og jákvæða byggðaþróun. Svo eru náttúrlega loftslagsmálin alls staðar nefnd í þessu samhengi. Það er rétt að hafa það í huga.

Þetta voru stóru línurnar. Ég ætla þá, eins og tími gefst, að fara aðeins dýpra í hvern og einn lið. Þar ætla ég að byrja á fjármögnuninni af því að hún hefur verið mikið rædd og er stór þáttur í þessu. Forsenda þess að allar framkvæmdir og þjónusta í vegakerfinu gangi eftir er fjármögnunin. Þá vil ég geta þess að vegakerfið er ein stærsta einstaka eign ríkissjóðs upp að lágmarki 750 milljarðar og henni þarf að viðhalda. Eftir því sem þessi eign stækkar og verður umfangsmeiri þá eykst þjónustuþörfin og kostnaðurinn við þjónustuna. Sem dæmi má nefna að eftir að komin er aðskild akstursstefna á Hellisheiði er komið vegrið sem þarf kannski að laga allt að aðra hverja viku. Það er nýr kostnaður. Snjómokstur á slíkum stöðum er kostnaðarsamari og kannski eykst umferðin og annað. Þegar ferðamannavegunum fjölgar og með dreifðari búsetu eykst þörfin víða á tíðari snjómokstri og meira viðhaldi og þjónustu vega þannig að við megum ekki gleyma því að þessir þættir stækka. Þetta var mikið rætt fyrir nefndinni. Það er kannski gott að nefna það núna að út af einni flýtiframkvæmdinni núna, framkvæmd sem var áætluð á næsta ári, að laga Biskupsbeygju um Heiðarsporð, voru 350 millj. kr. færðar frá árinu 2021 yfir til ársins 2020 með fjármögnun í fyrrnefndri fjárfestingaráætlun. Nefndin leggur til að þeim 350 milljónum sem losna á árinu 2021 verði ráðstafað í viðhald, einmitt vegna þess hversu mikilvægt það er að viðhalda þessari eign ríkissjóðs, tryggja umferðaröryggi og koma í veg fyrir að tapa fjárfestingunni. Það er sú breytingartillaga sem við gerum.

Varðandi fjármögnun að öðru leyti er heildarendurskoðun á framtíðarfjármögnun vegakerfisins hjá verkefnastjórn núna sem er að taka allt þetta saman, orkuskiptin t.d. og það hafa verið að falla til sértekjur af umferð og er verið að skoða hvaða tillögur við ætlum að leggja til um almenna gjaldtöku. Svo höfum við rætt um notendagjöld í jarðgöngum sem þarf að taka inn í þá vinnu. Ein tillagan í gildandi samgönguáætlun, þegar hún var samþykkt, var að taka upp notendagjöld í jarðgöngum sem eiga að standa undir einhverjum rekstrarkostnaði jarðganganna og jafnvel framkvæmdakostnaði líka þannig að hægt sé að að auka jarðgangaframkvæmdir. Það þarf að búa til þá stefnu og láta hana tengjast heildarstefnunni í fjármögnun vegakerfisins.

Svo er fyrrnefnt frumvarp um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir þar sem einkaaðilar og hið opinbera vinna saman að uppbyggingu og er hugsað þannig að það yrði gjaldtaka á þær einstöku framkvæmdir sem færi inn í þá leið. Þannig yrði reynt að hafa gjaldið ekki hærra en ávinninginn af því að leiðin verði styttri, hagkvæmari og öruggari.

Í samgöngusáttmálanum milli ríkis og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er gert ráð fyrir möguleika á að taka upp notendagjöld, svokölluð flýti- og umferðargjöld. Þar er líka talað um fjármögnun í gegnum sölu á Keldnalandinu. Svo munu sveitarfélögin koma með mótframlög inn í það og það verður líka tekið á því í samgönguáætlun. Þar er aukin fjármögnun fyrir samgönguuppbyggingu og hægt að fagna því að tíu ára framkvæmdastoppi á höfuðborgarsvæðinu er vonandi að fara að ljúka fyrr en síðar.

Svo vildi ég nefna fjárfestingarátakið, sem ég kom aðeins inn á áðan, 2021–2023. Þar var horft svolítið til sölu á hlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum, en kannski er betra að horfa á næstu árum á sölu í ríkiseignum, við þurfum að kanna það. Allt eru þetta leiðir sem hafa verið ræddar og skoðaðar núna og kalla á heildarendurskoðun í þessum málum sem við áætlum að verði í fyrsta lagi til 2022 en vonandi ekki seinna en 2023. Það ætti að vera klárt og komið í framkvæmd næst þegar samgönguáætlun verður endurskoðuð. Hana ber að leggja fram og endurskoða á þriggja ára fresti.

Ein af áherslum í gildandi samgönguáætlun eru stofnleiðirnar út frá höfuðborgarsvæðinu, mesti þjóðhagslegi ábatinn væri að klára þær og auka umferðaröryggi þar. Það sem ég hef alltaf sagt og hefði kannski átt að byrja á að segja er að samgöngumál eru stærsta velferðarmálið. Allar samgönguframkvæmdir auka hagvöxt. Þær draga úr umferðarslysum og kostnaði samfélagsins af þeim og það er náttúrlega samfélagslegur ábati af því. Það verður hagkvæmara að reka fyrirtæki, heimili og samfélagið allt sem slíkt. Því lögðum við réttilega áherslu á umferðarmestu og slysamestu vegina sem eru stofnæðarnar út frá höfuðborgarsvæðinu. Hluti af þeim framkvæmdum er kominn á áætlun innan höfuðborgarsáttmálans og svo er forgangsraðað þeim auknu fjármunum sem kom til samgöngumála í að klára restina. Það er gríðarlega mikilvægt að geta hafist handa við það t.d. að klára að aðskilja akstursstefnu og tvöföldun Reykjanesbrautarinnar frá Krýsuvíkurgatnamótum og alveg upp að flugstöð þar sem flestir landsmenn fara að lágmarki einu sinni á ári meðan flugsamgöngur eru í gangi. Þetta er einn umferðarmesti vegur landsins en því miður einn sá slysamesti líka. Ég tala nú ekki um hvað það er mikilvægt að klára Suðurlandsveginn og Vesturlandsveginn. Þetta er komið, eitt af áhersluatriðunum, til flýtingar og hefur þokast áfram sem er mikilvægt.

Að þessu sögðu vildi ég koma inn á höfuðborgarsáttmálann og geta þess að varðandi þá fjármögnun sem ég ræddi áðan og tengist höfuðborgarsáttmálanum er gert ráð fyrir að ef það eigi að taka upp flýti- eða notendagjöld á grundvelli höfuðborgarsáttmálans þarf það á einhvern hátt að fá samþykki Alþingis. Núna erum við að samþykkja vissan hluta af höfuðborgarsáttmálanum í gegnum samgönguáætlun, vissa forgangsröðun framkvæmda og þá fjármögnun sem nú þegar er komin og annað slíkt. Við leggjum áherslu á það að allar breytingar á sáttmálanum þurfa að koma í gegnum samgönguáætlun og vera samþykktar af Alþingi. Við viljum líka leggja gríðarlega áherslu á að eins mikilvægur og höfuðborgarsáttmálinn er, af því að hann kemur inn á svo mörg atriði í að auka og efla samgönguinnviði og fjölbreyttar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, varðandi skipulagsmál, fjármögnun og koma mikilvægum framkvæmdum af stað, er líka mikilvægt að allir aðilar samkomulagsins virði það. Öðruvísi gengur samkomulagið ekki upp. Það er alveg ljóst að í samkomulaginu er endurskoðun á ákvæðum þannig að ef helstu atriði þess ganga ekki eftir verður hægt að endurskoða og jafnvel segja upp samkomulaginu. Það sem er fremst í áherslum samkomulagsins er t.d. endurskoðun ljósastýringa og nú er búið að gera úttekt á því þannig að vonandi mun það ganga hratt eftir. En það sem hefur kannski gengið hægar er að koma framkvæmdum af stað sem eru framarlega í samgönguáætlun, eins og gatnamót milli Reykjanesbrautar og Bústaðavegar og svo er framkvæmd Arnarnesvegarins áætluð strax á næsta ári. Þá er mikilvægt að skipulagsmál þar hafi klárast sem og öll önnur skipulagsmál. Það tengist líka þessu opinbera hlutafélagi sem er á dagskrá hér á eftir þessum tveimur málum. Það félag er svolítið hugsað til þess að halda utan um bæði fjármögnunina og framgang framkvæmda, forgangsröðun og annað. Ég tel mikilvægt að farið sé eftir þessu.

Nú er tímanum fyrir mína fyrstu ræðu að verða lokið. Ég hef farið hérna yfir helstu áherslurnar hjá okkur, helstu breytingar og hvernig þetta allt saman er hugsað og vonandi hefur þetta skýrt það. Það er fullt af áherslum í nefndarálitinu og fylgigögn sem útskýra þetta nánar, t.d. á bls. 12 er farið yfir þau jarðgöng sem við leggjum til að séu rannsökuð til að búa til áætlanir. Það er mörg svona verkefni sem við leggjum til að verði unnin, hvernig þau verði unnin og hvað sé tekið tillit til.

Að öðru leyti vísa ég í þetta ítarlega nefndarálit og fylgiskjölin með því og vona að Alþingi samþykki þetta með góðu umboði fyrir þá vinnu sem við erum að fara í varðandi fjármálaáætlun í haust, að hér séu áherslurnar skýrar og við náum í sameiningu að fjármagna það í fjármálaáætlun og fjárlögum í haust þannig að þessar framkvæmdir og áætlanir hér nái fram að ganga.