150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:26]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er rosaáætlun í samgöngumálum. Mér er spurn hvort framsögumaður telji hana standast á einhvern hátt. Við vitum að fyrir 20, 30 árum voru áætlanir um ofanbyggðaveg. Hann hvarf. Það er búið að tala um Sundabrautina í fjölda ára og þar er ekkert farið að koma inn.

Ég sé ekki betur en að hér sé talað um Akureyrarflugvöll og ákveðnar fjárfestingar. Mér skilst að í áætluninni komi fram að ratsjárbúnaðurinn sé eitthvað farinn að gefa sig og þurfi endurnýjunar við og það kosti milljarða að endurnýja hann. Ég sé ekki hvort það sé í fjárhagsáætlun að gera það. Mig langar að spyrja hvort hv. þingmaður viti hvernig staðan er á því.