150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:46]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Herra forseti. Við höfum nú hlýtt á nefndarálit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 1. minni hluta sömu nefndar um tillögur til þingsályktana um samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024 og árin 2020–2034 sem fá brautargengi frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar við sérstakar kringumstæður. Heimsfaraldur COVID-19 hefur leitt til hruns víða í atvinnulífi, vaxandi atvinnuleysis og mikils samdráttar í verklegum framkvæmdum. Sem afleiðing þessa hefur ríkissjóður orðið fyrir miklu tekjufalli en að sama skapi gríðarlegum útgjöldum. Ekki sér fyrir endann á afleiðingum faraldursins og umfangi þeirra útgjalda sem falla á ríkissjóð. Því er það mat 1. minni hluta að fjárhagslegar forsendur samgönguáætlunar séu óvenjuveikar. Ekki síst eru óvissuþættir margir í ljósi þess að engar upplýsingar liggja fyrir um hvernig fjármálastefnu, fjármálaáætlun og fjárlögum fyrir næsta ár reiðir af. 1. minni hluti tekur undir meginmarkmið hinnar umfangsmiklu samgönguáætlunar til fimm og fimmtán ára en gerir þó mikla fyrirvara. Þeir fyrirvarar snúast að litlu leyti um einstaka málaflokka eða verkefni en miklu frekar um sýn og áherslur sem nánar er gerð grein fyrir í áliti þessu.

Orkuskipti í vegasamgöngum eru hafin en í samgönguáætlun er uppbygging innviða fyrir rafvæðingu bifreiða ekki sérstakt áhersluatriði, fjarri því, utan þess sem tæpt er á að innviðir til notkunar vistvænna orkugjafa í almenningssamgöngum verði til staðar og styðji við nýja umhverfisvæna tækni. Þörf er á stórátaki á þessu sviði sem og á mörgum öðrum sviðum í umhverfis- og loftslagsmálum ef von á að verða til þess að Ísland nái þeim markmiðum sem stefnt er að í Parísarsáttmálanum.

Í samgönguáætlun er ekki minnst á rafvæðingu flugs eða undirbúning fyrir þá rafmagnsbyltingu sem er fram undan í flugsamgöngum, jafnvel á allra næstu árum. Mikilvægt er að byrjað verði að móta stefnu um rafvæðingu þeirra flugferða, til að byrja með, sem eru 90 mínútur eða styttri. Þingmenn Samfylkingarinnar lögðu fram þingsályktunartillögu þess efnis að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að vinna að því að allar flugferðir sem styttri eru en 90 mínútur verði rafvæddar fyrir árið 2040. Það flug sem helst kemur til álita er innanlands-, almanna- og kennsluflug. Þróunin á rafknúnum flugvélum er hröð um þessar mundir og mörg fyrirtæki í nágrannalöndunum komin langt á veg með að þróa vélar sem myndu henta vel í innanlandsflug. Og hvað er að gerast á Íslandi? Það er engin flugvél til með þessum eiginleikum. Við sitjum hjá með hendur í skauti. Það væri ánægjulegt ef íslensk stjórnvöld tækju höndum saman við einkaaðila og festu kaup á vél til að prófa við aðstæður á Íslandi og reyndu hér við krefjandi umhverfi oft og tíðum til að undirbúa okkur fyrir það sem koma mun. 1. minni hluti áréttar mikilvægi þess að þessi málefni verði sett í forgang.

Rafvæðing hafna er mikið hagsmunamál og vísað til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í orkuskiptum nr. 18/146 frá árinu 2017. 1. minni hluti bendir á að markmiðum sem þar eru sett verður ekki náð að óbreyttu í þessari samgönguáætlun. Efla þarf rafinnviði hafna landsins en samkvæmt því sem fram kom á fundum nefndarinnar með sérfróðum gestum stendur skortur á tæknilegum lausnum ekki í vegi fyrir raftengingu í höfnum. Það eru innviðirnir sem þarf að treysta eins og á fleiri sviðum.

Í sáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis, segir að ríkisstjórnin stefni að því að allar stærri áætlanir ríkisins verði metnar út frá loftslagsmarkmiðum, eins og kom fram í andsvari hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar áðan. Í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum kemur fram að orkuskipti í samgöngum sé annað af tveimur helstu áhersluatriðum þeirrar aðgerðaáætlunar og að líta megi á orkuskipti í samgöngum sömu augum og hitaveituvæðinguna. Ekki er þó að sjá að metnaðurinn í þeim efnum hafi skilað sér í samgönguáætlun.

Boðuð er heildarendurskoðun á framtíðarfjármögnun vegakerfisins. Gefið er til kynna að um nýjar fjármögnunarleiðir verði að ræða en engar tillögur þess efnis liggja þó fyrir eða útfærsla og algjörlega óljóst hvernig að þeim málum verði staðið. Tæknilegar lausnir finnast, umfang gjaldtökunnar er ekki að finna í þessu skjali eða aðra möguleika. 1. minni hluti varar við óhóflegri gjaldtöku á almennar akstursleiðir íbúa landsins í sínu nærumhverfi og minnir á reynslu Norðmanna í þeim efnum þar sem veggjöld mæta vaxandi andstöðu almennings. Í samgönguáætlun eru boðuð notendagjöld í öllum jarðgöngum en útfærsla ekki rædd frekar á þessu stigi. 1. minni hluti leggst gegn svo afdráttarlausu ákvæði og telur óásættanlegt að íbúar sem eiga ekki aðra kosti en að aka um jarðgöng á sínu búsetusvæði taki á sig beinar auknar álögur. Minnt er á að vegfarendur hafa t.d. þegar gert skil á greiðslum vegna Hvalfjarðarganga að fullu og öllu og eru tregir til að taka upp þráðinn að nýju.

1. minni hluti tekur undir mikilvægi þess að áformum samkvæmt samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins verði framfylgt og nauðsynleg lög hér á hinu háa Alþingi verði samþykkt sem allra fyrst. Enn fremur að verkefnum samkvæmt sáttmálanum verði forgangsraðað í þágu greiðari umferðar með sem skjótustum og árangursríkustum hætti. Þar leggur 1. minni hluti áherslu á ljósastýringu sem heppilegan, fljótvirkan og árangursríkan kost sem greiðir fyrir umferð, minnkar tafir og dregur úr útblæstri.

Í samgönguáætlun er sett fram tillaga um sex samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum, svokölluð samvinnuverkefni (Public Private Partnership, PPP). Þessi verkefni er að finna á Austurlandi, á Suðausturlandi, á Vesturlandi og á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurlandi. Verkefnin eru ólík og fjármögnun þeirra hefur ekki verið skilgreind að neinu leyti. 1. minni hluti varar við því að grunninnviðir í vegakerfinu séu fjármagnaðir með þessum hætti og án þess að vandaðar úttektir hafi verið gerðar og samráð haft við hagsmunaaðila á viðkomandi svæðum. Á það skortir verulega varðandi þessi áform, t.d. ábatagreiningar, greiðsluvilja íbúa, félagsleg áhrif og byggðaþróun o.fl. Í samvinnuverkefni (PPP) felst að einkaaðili annast fjármögnun í heild eða að hluta eða tekur á sig með öðrum hætti fjárhagslega áhættu af gerð og rekstri opinbers mannvirkis, með heimild til gjaldtöku fyrir notkun. Mikilvægt er að Alþingi skilgreini nánar hvað felst í hugtakinu samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum. 1. minni hluti telur það algjöra forsendu að það sé skilgreint með formlegum hætti í hvaða tilvikum framkvæmd getur fallið undir þessa skilgreiningu með tilliti til aðkomu ríkissjóðs. Við verðum að átta okkur á því að svona samvinnuverkefni geta fundið sér stað á öðrum sviðum en bara í vegaframkvæmdum. Það geta verið opinberar stofnanir sem hægt er að koma á laggirnar undir þessum merkjum.

Í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar kemur fram að með fjölbreyttari fjármögnun en bara ríkisfé takist að flýta framkvæmdum, efla og styrkja byggðaþróun og atvinnuuppbyggingu. 1. minni hluti setur fyrirvara við þessa röksemdafærslu og telur marga veikleika í henni fólgna; bendir á að reynsla annarra þjóða sé sú að framkvæmdir af þessu tagi séu iðulega kostnaðarsamari en aðrir kostir sem bjóðast. Þetta er mikið athugunarefni nú um þessar mundir þegar ríkissjóður hefur greiðan aðgang að afar hagstæðum lánum á mjög lágum vöxtum. Í þessu samhengi má einnig benda á nýlega umsögn Félags íslenskra bifreiðaeigenda um 662. mál, sem er þetta samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum, sem finna má á þskj. 1122, þar sem fram kemur að félagið telji, eftir ítarlega skoðun og úttektir, að samvinnuverkefni þau sem eru á döfinni muni verða allt að 33% dýrari en ef ríkið fjármagnaði verkefnin, þriðjungi dýrari. Hvað þýðir það? Og hvaða hagspekingar mæla með öðrum leiðum? Eru það fulltrúar Sjálfstæðisflokks þar sem menn tala um ráðdeild og stjórnkænsku og telja sig vera í miklum færum í viðskiptalífinu? Er það Framsóknarflokkurinn? Já. Er það flokkurinn Vinstrihreyfingin – grænt framboð? Þetta eru flokkarnir sem mæla með þessari leið.

Fyrsti minni hluti bendir á að vetrarþjónusta á vegum virðist ekki vera eitt af forgangsverkefnum við íbúa dreifðari byggða og fjármunir sem varið er til þessara verkefna eru þeir sömu að krónutölu allt tímabil samgönguáætlunar 2020–2024, sem er ekki ásættanlegt. Fylgdarakstur er ein aðferð við að auka öryggi vegfarenda á veturna en fyrirkomulag slíks aksturs er með öllu óútfært og lítið rætt og ekki skilgreint nánar, t.d. af hálfu Vegagerðarinnar, sem hefur jafnvel sett einhverja fyrirvara við slíkt fyrirkomulag.

Því er fagnað að nú samhliða samgönguáætlun er í fyrsta sinn lögð fram flugstefna fyrir Ísland og nauðsynlegt að tryggja að varaflugvallaþjónusta verði með því efld samkvæmt breyttri aðkomu Isavia. Varaflugvallagjald hefur enn ekki verið tekið upp og í samgönguáætlun er þetta efni til skoðunar. Hrinda þarf þessu í framkvæmd sem fyrst sem mikilvægum tekjulið. Flokkun innanlandsflugvalla er nokkuð á reiki og hvetur 1. minni hluti eindregið til þess að grunnhugmyndir um flokkun flugvalla landsins, sem nefndar eru í nefndaráliti meiri hlutans, verði að veruleika og skilgreindir minni flugvellir fái að einhverju leyti að þjóna hlutverki sínu sem alþjóðaflugvellir. Þetta getur verið í litlum mæli en getur verið hentugt og raunhæfur kostur þegar við hugsum til framtíðar.

Engin heildarstefna liggur fyrir í hafnamálum á Íslandi og aðkallandi að gerð verði gangskör að því hið fyrsta. Margar hafnir þarfnast viðhalds nú þegar, aðrar þurfa stækkun í takt við tímana. Er jafnvel áætlað að viðbótarfjárþörf á næstu árum nemi árlega um 2,2 milljörðum kr. Í samgönguáætlun er þessi þörf ekki höfð til hliðsjónar við afgreiðslu.

Herra forseti. Þá hef ég nú lokið yfirferð yfir þetta minnihlutaálit. Undir það ritar sá er hér stendur, Guðjón S. Brjánsson. Ég hef rakið efni þess í stórum dráttum og eins og fyrr segir, þá er það mat 1. minni hluta að forsendur áætlunarinnar séu óvenjuveikar og ástæða sé til að óttast að stjórnvöld taki þá óheillaákvörðun að skera niður, draga saman seglin í ljósi aðstæðna. Það væri óráð. Við ríkjandi kringumstæður er lífsspursmál að hnykla vöðvana og taka á, bæta í fyrir framtíðina.

Ástandið hrópar á aðgerðir vítt og breitt um landið. Við höfum dæmi um stofnvegi sem eru ómalbikaðir, t.d. Skógarstrandarvegur, og afar brýnt að það verkefni fái sem hraðastan framgang en vonir standa til að einhverjir stuttir áfangar náist á þessu ári. Á Vesturlandi eru um 14% af vegakerfi landsins og þar eru um 60% vega án slitlags. Þrjú sveitarfélög á Vesturlandi eru í hópi þeirra tíu sveitarfélaga á landsvísu þar sem fæstir vegir er lagðir bundnu slitlagi. Þetta talar sínu máli og allt eru þetta fjölfarnar leiðir þar sem ferðamenn gera sig heimakomna.

Í umræðunni um sameiningu sveitarfélaga, sem hefur verið áberandi og stjórnvöld hafa talað fyrir, fækkun þeirra og stækkun, er lykilatriði að sá hvati verði settur inn sem felst í stuðningi við greiðar og öruggar samgönguæðar svo að hægt verði að byggja upp heildstæð atvinnu- og þjónustusvæði. Sömu sögu er að segja um tengivegi víðs vegar um land. Vegir um blómlegar sveitir eru bágbornir þar sem skólaakstur er talsverður og straumur ferðamanna allt árið mikill, eins og t.d. á Vatnsnesi við Húnaflóa en í þessum landshluta eru einhverjar lengstu skólaakstursleiðir landsins.

Virðulegur forseti. Með þessari samgönguáætlun er lýst yfir vilja til úrbóta en sem fyrr segir eru allar framkvæmdir háðar fjármögnun og vissulega kom það fram í máli framsögumanns meiri hlutans, hv. þm. Vilhjálms Árnasonar, að allt er þetta háð fjármögnun. Og nú er fjármögnun mikilli óvissu háð. Ég tel að við eigum að vera raunsæ og ræða það opinskátt.

Í samgönguáætlun er tæpt á hugmyndum um flokkun flugvalla landsins og hlutverk þeirra í flugi milli landa. Sérstaklega vil ég hér nefna þá sem ætlaðir eru minni flugvélum, t.d. í leiguflugi og ferjuflugi. Hornafjarðarflugvöllur hefur oft verið nefndur í þessu sambandi og ég vil líka nefna Ísafjarðarflugvöll í tengslum við hugsanlegt Grænlandsflug, með tilliti til fjarlægðanna. Þarna eigum við að efla samskiptin og leggja það sem við getum af mörkum til aukinna samgangna.

Áætlunarflugvellir innan lands eru ellefu samkvæmt skilgreiningu en tveir þeirra eru ekki í virkri notkun, Alexandersflugvöllur á Sauðárkróki og flugvöllurinn á Þingeyri. Í samgönguáætlun er ekki nein afstaða tekin til þessara valla sem henta raunar báðir ágætlega sem æfinga- og þjálfunarvellir fyrir kennsluflug. Þetta er mikilvægt atriði því að við þurfum að stuðla að því að mennta hæfa og góða flugmenn til að fljúga við krefjandi aðstæður hér innan lands og um gjörvallan heiminn.

Hér er líka hnykkt á því að framtíðarflugvöll vantar á Vestfirði og minna á þingsálytkunartillögu sem ég lagði fram fyrir nokkrum misserum um að hafin yrði rannsókn á hentugu flugvallarstæði. Með nýjum Hrafnseyrargöngum er eðlilegt að velta fyrir sér hvort ekki er raunhæft að koma fyrir burðugum flugvelli á svæðinu sem getur fullnægt flugsamgöngum fyrir Vestfirði, bæði á skemmri leiðum innan lands og jafnvel yfir höf og milli landa. Við þurfum að opna augu okkar fyrir því að ný öld er að rísa gagnvart rafknúnum flugvélum sem verða margfalt ódýrari í rekstri og geta skipt sköpum strax á þessum áratug á styttri leiðum eins og nefnt var að framan. Þarna sitjum við Íslendingar enn sem komið er hjá.

Hafið hefur verið gullkista okkar Íslendinga um margar aldir. Hafnirnar eru lífæðar margra samfélaga í landinu. Við höfum samþykkt flugstefnu en enga hafnastefnu. Hér þurfum við að reka af okkur slyðruorðið og hafa þessi málefni í föstum og tryggum skorðum. Það eiga sjómenn og þeir sem eiga erindi um hafnir skilið.

Herra forseti Sú tillaga sem hér er lögð fram er að mörgu leyti efnismikil og ber merki þess að viljann vantar ekki, viljann til þess að bæta innviði okkar. En eins og jafnan áður er hún ekki fjármögnuð, þetta er óskalisti sem hætta er á að valdi mörgum vonbrigðum ef ekki tekst að framfylgja áformum sem þar eru kynnt og tímasett nema að takmörkuðu leyti. Þetta verklag er ekkert náttúrulögmál þótt tíðkast hafi lengi. Sú meginvinnuregla á vitaskuld að vera uppi höfð að samgönguáætlun skuli ekki leggja fram fyrr en fjármagn til hvers einasta viðviks hefur verið tryggt. Þetta er hægt og þetta eigum við að gera.

Að lokum vil ég þakka samnefndarmönnum í umhverfis- og samgöngunefnd fyrir samstarfið og vinnuna við að búa tillögu að samgönguáætlun í það horf sem hún er og við höfum heyrt af. Ekki náðist samstaða í nefndinni um eitt álit. Það þýðir ekki að djúpur ágreiningur sé um meginþorra þeirra verkefna sem fram undan eru og blasa við. Í nefndinni var mikil viðleitni og rík til að ná víðtækri sátt og samstöðu um þetta viðfangsefni og þau sem héldu utan um verkefnið gerðu það af mikilli alúð. Sú nálgun sem valin var var til fyrirmyndar þótt sérálit minni hlutans hafi orðið tvö í því umfangsmikla máli sem tillaga að samgönguáætlun er.