150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:17]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir prýðisyfirferð yfir álit 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar um samgönguáætlun. Ég vil líka þakka hv. þingmanni fyrir samstarfið í nefndinni sem var með ágætum eins og hann kom inn á og í nefndaráliti 1. minni hluta eru ýmsar góðar ábendingar.

En mig langar að byrja á því að staldra við sömu atriði og hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson gerði, í umfjöllun um orkuskipti og rafvæðingu flugs, vegna þess að mér finnst að í álitinu sé skautað dálítið vel yfir það sem kemur t.d. fram í flugstefnunni. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort ekki sé tekið afgerandi á þessu í flugstefnunni og mig langar að lesa upp úr henni eitt af lykilviðfangsefnunum:

„Lykilviðfangsefni 4. Draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum flugs og flugtengds rekstrar. Greiða fyrir orkuskiptum á sviði flugsamgangna samfara tækniþróun og stuðla að uppbyggingu nauðsynlegra innviða vegna þeirra.“

Þarna finnst mér alla vega tekið mjög skýrt á þessu og beini þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort hann sé ekki sammála því. Í flugstefnunni eru síðan helstu áherslur til að ná fram markmiðum um umhverfislega sjálfbærar samgöngur og þar er sagt hvorki meira né minna en að „Ísland verði fremst í flokki í umhverfismálum tengdum flugi og flugrekstri. Stefnt að hvötum til orkuskipta í flugi þegar fullnægjandi tækni hefur verið þróuð og stuðlað að nýtingu innlendra umhverfisvænna orkugjafa. Innviðir fyrir flugvélar knúnar vistvænum orkugjöfum verði til staðar á flugvöllum. Þjónustutæki á flugvöllum landsins verði knúin umhverfisvænum orkugjöfum.“