150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir samstarfið í nefndinni og yfirferð hans yfir álit 1. minni hluta. Ég get, eins og hv. þingmaður, tekið undir margt í áliti meiri hlutans, enda er samræmi þar á milli að mörgu leyti. Ég var með þrjú atriði sem mig langaði að ræða við hv. þingmann. Tvö þeirra eru nú komin fram, það fyrra var hvort hv. þingmaður teldi að það myndi ganga betur og hraðar í loftslagsmálum að einskorða orkuskipti í flugsamgöngum við rafmagn í staðinn fyrir að hafa fjölbreytta samgöngumáta, eins og stefna meiri hlutans er. Fram kemur í nefndarálitinu að við eigum að hafa fjölbreytta innlenda orkugjafa.

Ég ætlaði líka að spyrja hv. þingmann hvort samherjar og samflokksmenn hans í borgarstjórn væru ekki örugglega sammála áherslunni á ljósastýringu og hversu mikilvæg hún er. Ég tek 100% undir áherslu hans á það.

Þá að aðalspurningunni minni fyrst búið er að fjalla svolítið um hitt: Hvernig hyggst hv. þingmaður koma mikilvægum samgönguframkvæmdum í framkvæmd fyrst hann hefur svona gríðarlega mikla fyrirvara við allar fjármögnunartillögur meiri hlutans? Hvernig ætlar t.d. þingmaðurinn að koma framkvæmdum um Öxi af stað, framkvæmdum við Hornafjarðarfljót, sem geta hafist bara hvenær sem er og eru ekki fjármagnaður í samgönguáætlun nema að hluta til í gegnum samgönguframkvæmdir? Hvernig ætlar hv. þingmaður að koma Sundabraut af stað og hvernig á að fjármagna t.d. Vatnsnesveg, Skógarströnd og aðra tengivegi og annað slíkt miðað við alla þá stóru fyrirvara sem gerðir eru við þær fjármögnunarleiðir sem hér eru nefndar?