150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:25]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir andsvarið. Hvort við getum valið okkur fleiri kosti en rafmagn — auðvitað eigum við að skoða alla valkosti. Menn einblína dálítið mikið á rafmagn um þessar mundir. Fyrst og fremst það að við séum um borð í þessum leiðangri og þeim könnunum sem verið er að gera um kostina á orkuskiptum í fluginu. Við eigum að vera þar í fyrsta sæti og á fremsta bekk, ekki sitja á aftasta bekk eða vera einhvers staðar aftarlega í stæði því að svo mikla áherslu leggjum við á umhverfis- og samgöngumál. Það kemur auðvitað fram í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Þarna finnst mér ekki fara alveg saman hljóð og mynd.

Hv. þingmaður spyr hvort við séum ekki samstiga um borgarsáttmálann. Ég hef nú ekki talað mjög nákvæmlega við félaga mína hjá Reykjavíkurborg en geri fullkomlega ráð fyrir því að við séum 100% sammála. En þetta verður auðvitað að ráðast af því hvað skynsamlegast er að gera. Ég trúi ekki öðru en að menn séu sáttir við það.

Hvernig ætlum við að framkvæma þau sex verkefni sem eru á döfinni núna ef ekki kæmi til PPP? Það er hægt að gera með ýmsu móti. Við höfum auðvitað okkar sameiginlegu sjóði. Við getum staðið að þeim sem samvinnuverkefnum þó að það sé ekki gert með þeim hætti. Það er hægt að taka lán. Við getum tekið á þessu saman, átt þetta saman. Við útilokum ekki endilega gjaldtöku (Forseti hringir.) á einhverjum ákveðnum sviðum en það verður auðvitað að tengjast (Forseti hringir.) breyttri gjaldtöku eða skattlagningu almennt í vegakerfinu.