150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:59]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir spurninguna. Ég held að það sé augljóst hvaða leið við viljum fara í 2. minni hluta og ég held að það sé mjög einfalt að útskýra hana. Ég held að það sé ódýrara að fara skuldsetta leið, þ.e. að ríkissjóður taki lán fyrir þeim framkvæmdum sem við viljum sjá gerast í samgöngumálum, einmitt núna þegar ríkissjóður stendur vel og við erum að fara í niðursveiflu. Það sem ég gagnrýni líka er að við erum að tefja þessar framkvæmdir og upphaf þeirra mjög mikið, t.d. með því að fara þessa PPP-leið, fara jarðgangaleiðina. Það tefur bara. Ég sé ekki fram á að þessar framkvæmdir hefjist fyrr en eftir kannski eitt, jafnvel tvö ár. Þá verður komin ný ríkisstjórn, (Forseti hringir.) nýir menn í forystu í samfélaginu. Ég held að skuldsett leið væri mikið fljótvirkari.