150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég legg áherslu á höfuðborgarsáttmálann þar sem við hv. þingmaður erum, að ég held, algjörlega sammála. Við viljum fá ný gatnamót við Bústaðaveg og Reykjanesbraut. Við viljum fá Sundabrautina af stað sem fyrst. Við vonumst til þess að framkvæmdir við Arnarnesveg hefjist sem allra fyrst og að ljósastýringin fari af stað. Öll þessi verkefni hafa verið stopp vegna skipulagsmála á höfuðborgarsvæðinu. Nú er komið samkomulag um að rjúfa þetta tíu ára framkvæmdastopp. Það snýst ekki um skuldsetta leið eða eitthvað annað. Það snýst um samkomulag. Ef við myndum draga allt varðandi forgangsreinar sem borgarlína getur keyrt á — og ég skil ekki af hverju hv. þingmaður hefur svo miklar áhyggjur af rekstri borgarlínu sem við erum ekkert að fjalla um hér, ekki neitt. Hvernig ætlar hv. þingmaður að ná fram skipulagsbreytingum á höfuðborgarsvæðinu, svo hægt sé að hefja fjármagnaðar framkvæmdir þar, öðruvísi en í gegnum samkomulag sem hér liggur á borðinu?