150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:03]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir yfirferð yfir nefndarálit 2. minni hluta um samgönguáætlun. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir samstarfið í nefndinni sem var með ágætum og ég sé það á nefndarálitinu að það er margt sem við erum sammála um.

En það eru þó ýmis atriði sem mig langar að staldra við og spyrja betur út í. Ég vil byrja á Sundabraut sérstaklega. Í öðru orðinu kemur þingmaðurinn inn á að það sé verið að eyðileggja vegstæði Sundabrautar og í hinu orðinu að það sé ekki til neitt skipulag um það hvar Sundabrautin eigi að liggja eða hvar hún geti legið. Eftir því sem ég best veit er vinnuhópur að störfum núna sem mun skila tillögum að legu Sundabrautar í lok sumars og vil ég því spyrja þingmanninn hvort hann hafi einhverjar aðrar upplýsingar um það en að þetta standi til.