150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:04]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Ef það liggur fyrir að það komi úttekt eða einhvers konar áætlun um það í lok sumars hvar Sundabrautin eigi að vera þá fagna ég því að sjálfsögðu. Ég man bara eftir því frá því að maður var unglingur að menn voru að bíða eftir þessari svokölluðu Sundabraut. Hún er ekki enn komin. Auðvitað fagna ég því með ykkur ef það hillir undir það að málefni Sundabrautar komist á hreint og við förum að sjá fyrir endann á því máli og að það komi lausn á þessari samgöngubót, sem hún svo sannarlega er varðandi þessa miklu umferð vestur á land og norður í land í gegnum Mosfellsbæ. Ég fagna því ef það er að koma einhvers konar úttekt á þessu og ég vissi reyndar ekki af því. Svarið er það. Þannig að ég fagna því bara með hv. þingmanni.