150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:05]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og það er gott að hafa getað upplýst hér að von er á tillögum um legu Sundabrautar í lok sumars. Ég hef heyrt hv. þingmann gagnrýna borgarlínu og fjármagn sem sett er í hana bæði í yfirferð um nefndarálitið og fyrri umræðu í þingsal. Ég hef hins vegar aldrei heyrt hvaða leiðir hann vill fara til að tryggja greiðar leiðir fyrir núverandi og framtíðaríbúa höfuðborgarsvæðisins sem vilja og þurfa að nýta sér almenningssamgöngur. Því vil ég spyrja hvaða leiðir hann sjái fyrir sér í því ef ekki borgarlínu. Og síðan vil ég spyrja að því hvaða upplýsingar þingmaðurinn hefur um að það losi eitthvert land að setja Miklubraut í stokk. Eftir mínum heimildum verða umferðarmannvirki yfir þessum stokki sem og í honum.