150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:09]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég missti af því hvort spurning var þarna innifalin, ég heyrði það nú ekki eða missti af henni. En hv. þingmaður var að tala um borgarlínu og hraðstrætisvagna. Ég myndi gjarnan vilja fá hraðkennslu hjá hv. þingmanni í því hvað borgarlína er. Hann nefndi hraðstrætisvagna. Er það ætlunin að þetta séu hraðstrætisvagnar? Ég hef heyrt ýmislegt annað, en það væri kannski ágætt, fyrst hv. þingmaður var ekki með spurningu til mín, að hann upplýsti okkur hér á einni eða tveimur mínútum um hvað borgarlína er. Það liggur ósköp lítið fyrir um hvað borgarlína er, hvernig hún verður framkvæmd. Áætlanir; rekstraráætlanir, framkvæmdaáætlanir og kostnaðaráætlanir eru allar í mjög mikilli þoku. Við erum að fara í vegferð sem við vitum ekki hvar endar, sérstaklega ekki kostnaðarlega. Ég er ekki tilbúinn að samþykkja það fyrir hönd skattgreiðenda að við leggjum út í svona ævintýri nema við sjáum lengra fram í tímann en við gerum hér og nú.