150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:12]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta (Karl Gauti Hjaltason) (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég viðurkenni það, hv. þingmaður, að ég myndi vilja sjá meira fjármagn í stofnvegi á höfuðborgarsvæðinu en það sem ætlað er að setja í borgarlínu. Já, ég vil sjá meira þeim megin, ég viðurkenni það. Er ekki bara ódýrara að byrja strax, hv. þingmaður, á því að kaupa upp þau hús sem eru í vegstæði þvert í gegnum borgina en að fara að þrengja að umferð og skapa hér umferðarhnúta sem við höfum ekki áður séð, og sjáum við þó nóg af þeim nú þegar í borginni? Er ekki bara ódýrara, hv. þingmaður, að taka nokkra milljarða í það að kaupa upp þau hús sem þar eru fyrir í stað þess að koma borgarlínu fyrir á þessum uppfullu vegum alla daga og þrengja enn meira að þeirri umferð sem þar er? Er það ekki bara ódýrara? (BLG: Nei.)