150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:16]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Okkur hv. þingmönnum liggur mikið á hjarta og við höfum greinilega þörf fyrir að tala aðeins lengur. En mig langar að fá fram hjá hv. þingmanni hvernig hann sér fyrir sér að við hröðum uppbyggingu almenningssamgangna nú þegar Ísland hefur axlað alþjóðlegar skuldbindingar þegar kemur að útblæstri, aðgerðum gegn loftslagsvánni og ekki síst nú á tímum þegar við erum að koma út úr heimsfaraldri og beinum sjónum okkar enn frekar að heilsu og heilsufari og heilbrigðari borgum og borgarsamfélögum.

Hvernig sér hv. þingmaður eiginlega fyrir sér þess háttar uppbyggingu ef við viljum ekki hraða uppbyggingu borgarlínu en setja frekar meira fé í stofnbrautir, eins og hann talaði um áðan? Og já, það er rétt hjá hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni að búið er að kostnaðargreina og búa til endalausar sviðsmyndir og skipulag varðandi borgarlínu þannig að þær upplýsingar liggja allar fyrir. Ég myndi gjarnan vilja sjá framtíðarsýn hv. þingmanns þegar kemur að almenningssamgöngum og heilbrigðari samgönguháttum á höfuðborgarsvæðinu.