150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:40]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði að ræða önnur mál, en vegna útúrdúrs hv. þm. Bergþórs Ólafssonar stenst ég ekki mátið að lýsa því yfir að mér finnst það einhvers konar met í skeytingarleysi gagnvart 230.000 íbúum Íslands að gera lítið úr vilja þeirra sex sveitarstjórna, sem fara með stjórn í þeim sveitarfélögum sem þessi 230.000 búa í og sem náð hafa samkomulagi við ríkisvaldið um hvernig þeir vilja sjá málum hagað í sínum sveitarfélögum hvað varðar almenningssamgöngur og hvað varðar samgöngur almennt, og kalla það lausnargjald af því að þessar leiðir hugnast ekki hv. þingmanni. Það er einhver sérstök tegund af skeytingarleysi þar sem hægt er að smætta þetta allt niður í andstöðu hv. þingmanns við kannski bara einn stjórnmálamann, þ.e. borgarstjórann í Reykjavík.

Það er ótrúlega sérstakt að geta ekki náð höfðinu upp úr nafla andstöðunnar við borgarstjórnarmeirihlutann í Reykjavík og séð að þetta eru bæjarstjórnir 230.000 íbúa landsins. Ég ætlaði öðrum hv. þingmönnum að fara út í þetta en ég gat ekki orða bundist því að mér finnst þetta alltaf jafn furðulegt. Ég ætlaði að ræða allt annað mál, herra forseti. Undrun mín leiddi mig á þessar slóðir, ekki í fyrsta skipti, og ég verð þá að koma að hinu í seinna andsvari mínu.