150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:45]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er ágætt að hv. þingmaður ræði ýmsar aðrar framkvæmdir, t.d. Sundabraut, og líka vilja íbúa sem hann telur sig geta talað fyrir. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann út í vilja íbúa í Suðurkjördæmi. Fulltrúar margra sveitarfélaga þar komu á fund hv. umhverfis- og samgöngunefndar og hvöttu mjög til þess að annað mál sem vonandi verður á dagskrá hér sem fyrst, PPP-mál, yrði samþykkt enda útskýrðu framkvæmdaraðilar fyrir okkur að ef það yrði gert væri strax hægt að fara í framkvæmdir í Suðurkjördæmi.

Ég sé að í nefndaráliti hv. þingmanns er talað um að fara ekki þá leið heldur aðra, þ.e. að samþykkja rammalöggjöf utan um það, sem þýðir augljóslega að málið yrði ekki samþykkt núna heldur yrði það að koma næsta haust. Hvað vill hv. þingmaður segja við íbúa (Forseti hringir.) sveitarfélaganna sem bíða eftir umræddum framkvæmdum? Er hann líka með beina (Forseti hringir.) tengingu í huga þeirra eins og íbúa á höfuðborgarsvæðinu?