150. löggjafarþing — 117. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[00:01]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég vil meina að svarið við því hvort við eigum að bæta í heildarskuldsetningu sé já. Við verðum að gefa okkur að þær framkvæmdir sem myndu grundvallast á því skuldsetta framkvæmdaátaki séu arðsamar og skili einhverju inn í samfélagið til lengri tíma. Umfang þess sem slíkt skilar til hins opinbera er auðvitað verulegt, bæði í sköttum og gjöldum, launum, útsvari til sveitarfélaga og þar fram eftir götunum. Þannig að það verður að horfa á það frá öllum hliðum. Staðan er sú að það hefur sennilega aldrei verið auðveldara en núna að fjármagna innviðaframkvæmdir ríkja á ótrúlega lágum vöxtum. Segjum sem svo að ríkissjóður vildi taka evruáhættuna í þeim efnum og fjármagna þetta í erlendri mynt, í evrum, þá væri vaxtakostnaður mjög nærri núlli í augnablikinu. En auðvitað myndi gengisáhættan þá sveiflast til þann tíma sem fjárveitingin varir. En ég er algerlega sannfærður um að við myndum gera landi og þjóð mikið gagn með því að ramma inn skuldsetta fjármögnun, eins og með þessum hætti, (Forseti hringir.) keyra á mikið framkvæmdaátak og koma út úr því með verulega bætt samgöngukerfi og útfæra niðurgreiðslu lánanna (Forseti hringir.) með skuggagjöldum eða öðrum þeim leiðum sem færar eru. (Forseti hringir.) Ég biðst afsökunar, herra forseti, á að hafa verið of lengi að svara.