150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar.

814. mál
[13:06]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir góða vinnu við málið sem hefur tekið góðum breytingum í meðförum þingsins. Ríkisstjórnin hefur lagt sig í líma við að hjálpa heimilum og fyrirtækjum að komast í gegnum öldurótið sem Covid-19 hefur skapað og þetta er eitt af þeim málum, einn liður í aðgerðum til að koma líflínu til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir gríðarlega miklu tekjuhruni og er nauðsynlegt að skapa fyrirtækjum í þessum aðstæðum skjól til uppbyggingar. Kannski má líkja þessu við skip sem er tekið í slipp til viðgerða og viðhalds, það er mikilvægt á þessum tímum, enda óvænt áfall. Frumvarpið getur orðið mjög mikilvægt fyrir fjölda fyrirtækja sem hafa átt erfitt uppdráttar vegna Covid og með frumvarpinu verður mögulega komist fram hjá gjaldþroti fyrirtækja sem hefðu í eðlilegu árferði séð fram á rekstur til framtíðar.