150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:32]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum samgöngur og ég hef heyrt, bæði í dag og í gær, ansi góða umræðu. Útgangspunktur minn í þetta sinn verður Norðausturland og landið allt, heildin. Ég vil sérstaklega taka til álits sem 2. minni hluti samgöngunefndar lagði fram í gær. Ég sé að 2. minni hluti nefndarinnar er sammála meiri hlutanum um, með leyfi forseta:

„að verulega þurfi að herða á framkvæmdum á öllum sviðum samgangna og að leitast verði við að koma til móts við brýna viðhalds- og nýframkvæmdaþörf í samgöngukerfinu.“

Auk þess leggur 2. minni hluti áherslu á að verkefnum í samgöngum verði forgangsraðað með tilliti til hagkvæmni og jafnræðis milli landshluta, byggðasjónarmiða og sjónarmiða um öryggi. Það þarf varla að minnast á þær aðstæður sem eru uppi og margir hafa minnst á, að samgönguverkefni akkúrat núna henta vel og þau eru þjóðhagslega hagkvæm. Það er alltaf gott að hugsa um landið sem eina heild, sem eitt samfélag. Í því felst að gera þarf heildaráætlun sem tekur á öllum þáttum samfélagsins og þeirri framtíðarsýn sem við höfum fyrir landið. Samgönguáætlun, bæði til skamms og langs tíma, þarf að samstilla svo eitt styðji á sem bestan hátt við annað. Það er mikilvægt að þannig sé haldið á málum og tækifærin séu nýtt um allt land og það snertir samgöngur sérstaklega.

Þetta leiðir mig að varaflugvöllum landsins sem eru alþjóðaflugvellir, alla vega tveir stærstu. Í því ástandi sem nú ríkir verðum við hreinlega að huga að því að opna fleiri en eina gátt til landsins. Það að hafa fleiri en eina gátt til landsins snýr ekki aðeins að ferðamönnum, það snýr einnig að öryggi landsins alls. Það er ágætt að sjá fjármuni setta í flughlað á Akureyrarflugvelli sem og flugstöð og fjármunir eru einnig settir í Egilsstaðaflugvöll. Þetta snertir kjördæmi mitt vissulega. Ég hefði viljað sjá meira fjármagn og ég hefði viljað sjá aðeins meira inn í framtíðina. Þetta fjármagn sem nú á að setja dugar til þess að fara í jarðvegsvinnu, ef ég hugsa til Akureyrarflugvallar, og hönnun á flugstöð þar og á Egilsstöðum er um að ræða fjármagn til brautar. Ef ég hugsa aðeins til Akureyrar þá er það þannig að tíminn vinnur ekki beint með okkur þar sem óvissa er um hvernig jarðvegur á svæðinu mun haga sér, jarðvegurinn þar sem flughlaðið á að vera. Byrjað er að vinna í því en svo er spurning hvernig þetta mun allt saman líta út gagnvart byggingu flugstöðvar.

Nefnt er í skýrslu sem var gefin út af samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu í mars 2020, með leyfi forseta, að:

„Vegna óvissu um eiginleika byggingarsvæðisins og hugsanlegs sigtíma jarðvegsfyllingarinnar er mikilvægt að hefja jarðvinnuna sem fyrst. Byggingartími frá því lóðin er tilbúin er á annað ár.“

Áfram segir í skýrslunni, þar sem er reyndar vitnað í aðra skýrslu sem skrifuð var af Eflu og gefin út 2018:

„Grundun nýju flugstöðvarbyggingarinnar hefur ekki verið skoðuð sérstaklega. Gera þarf ráð fyrir tíma vegna jarðvegsathugana, hvort sem notaðir verði undirstöðustaurar við grundun hennar eða jarðvegsskipti, en ferging getur verið vandasöm þar sem byggja á að núverandi húsnæði. Eldri hluti flugstöðvarinnar er á fyllingu og kjallari er í elsta hluta hennar. Nauðsynlegt er að hefja þessa athugun sem fyrst þannig að ákvörðun um grundun liggi fyrir tímanlega, en tímafrekt getur verið að koma fyrir fyllingu og fargi og reikna má með að sig fyllingarinnar gæti tekið allt að 6–8 mánuði.

Gert er ráð fyrir að heildarbyggingartími nýrrar flugstöðvar verði aldrei skemmri en 2 ár og þar af taki breytingar og endurbætur á núverandi flugstöð um 6 mánuði.

Áður en vinna við burðarlög hefst þarf að færa núverandi olíuport á sinn framtíðarstað. Setja þarf niður nýja rotþró eða hreinsistöð, eða tengja skólplagnir við fráveitukerfi Akureyrarbæjar. Þegar flutningi er lokið þarf að undirbyggja og fergja þessi svæði og bíða eftir ásættanlegu sigi áður en hægt er að halda áfram við gerð og frágang burðarlags á þessum svæðum. Gera má ráð fyrir að þessi framkvæmd með sigtíma gæti tekið allt að 12 mánuðum.“

Eins og ég segi þá vinnur tíminn ekki beint með okkur. Þetta skiptir mjög miklu máli, ekki bara fyrir okkur á norður- og austurhluta landsins, þetta er ákveðin byggðastefna. Flest viljum við halda öllu landinu í byggð og ef á að standa við flug sem almenningssamgöngur þá verður að hafa þetta í huga. Ég tel reyndar að heimamenn, bæði á Akureyri og Egilsstöðum, hafi verið býsna þolinmóðir. Það gætti ákveðinnar bjartsýni fyrir ekki svo löngu þegar við fengum þær fréttir að nú ætti að setja allt á fullt en inn í myndinni verðum við að hafa að allt þetta mun taka þann tíma sem ég sagði hér frá.

Ég fagna sérstaklega umræðu um það sem viðkemur EGNOS, sem hv. þingmenn hafa nefnt í umræðunni bæði í dag og í gær. Ég bendi einnig á álit 2. minni hluta samgöngunefndar um Reykjavíkurflugvöll, sem er skilgreindur sem miðstöð innanlandsflugs, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Annar minni hluti telur óforsvaranlegt að breyting á deiliskipulagi verði gerð án þess að fullnægjandi rannsóknir á áhrifum þessarar uppbyggingar á flugöryggi liggi fyrir. Er í því sambandi bent á samning Isavia við hollensku geimferðastofnunina um úttekt sem vænta má frétta af í júlí 2020“ — sem er ekki eftir svo langan tíma.

Í þessu sambandi skulum við hafa það í huga að miðstöð sjúkraflugs er á Akureyri. Þetta skiptir allt máli og helst í hendur.

Ég vil taka það fram að flug sem almenningssamgöngur hugnast mér mjög vel. Ég hefði jafnvel viljað sjá úttekt á farþegafjölda Strætó á landsbyggðinni, vita hve mikið við erum að niðurgreiða strætóferðir á landsbyggðinni og hafa það sem grunn að því hvernig við getum hugsað um málaflokkinn heildstætt. Það gæti þurft að byrja á því að skoða Strætó eða sjá hvað leiðir Strætó fer, hvaða leiðir bera sig og hvaða leiðir bera sig ekki, hvar þær standa undir kostnaði og hvar ekki. Kannski eiga þær ekki að standa undir kostnaði, það er bara ákvörðun. En það væri hægt að rýna þetta allt saman og taka ákvörðun um að vera ekki með stóra bíla þar sem þeirra er ekki þörf. Í nágrannalöndum okkar, og það hef ég lært í gegnum Norðurlandasamstarf, eru fólksbílar notaðir. Það eru jafnvel sveitarfélög sem reka þessa þjónustu eða bjóða hana alla vega út og fá aðila til að sjá um þjónustuna. Við þekkjum þetta sem þjónustu fyrir fatlaða og aldraða á Íslandi. En ég sæi alveg fyrir mér að hægt væri að kafa svolítið ofan í þetta og sjá hvort við séum að kasta peningum þarna. Ég myndi miklu frekar vilja nýta þá til að efla enn frekar flugsamgöngur. Eins og hefur komið fram í máli nokkurra eru það litlu flugvellirnir sem við verðum að standa vörð um. Vissulega er verið að vinna í að lagfæra þá svo að þeir verði viðunandi, enda skiptir það líka máli þegar við erum að huga að flutningi sjúklinga sem einhverra hluta vegna lenda allir í Reykjavík. Það hlýtur að vera hagkvæmt að kafa ofan í þetta.

Ég er viss um að það er hægt að hagræða í almenningssamgöngum og ég er líka viss um að hugsa verður um samgöngur heildstætt. Mér finnst mjög spennandi að fylgjast með þróun í orkuskiptum, hvað varðar flug sérstaklega og fannst mjög áhugavert að heyra talað um það hér í dag, en ég læt þetta duga.