150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Við fjöllum hér um samgönguáætlanir og það er alltaf mikill viðburður á þingi þegar við fjöllum um þær. Þau ár sem ég hef verið hér hefur þetta alltaf verið löng og mikil umræða, enda ósköp eðlilegt því að bæði eru miklir fjármunir á ferðinni og áherslur vitanlega misjafnar eftir landshlutum og jafnvel á milli flokka og þingmanna. Menn skiptast á skoðunum um hvernig menn deila þeim takmörkuðu fjármunum sem yfirleitt eru til skiptanna þegar kemur að þessum málum eins og öðrum. Það er samt þannig, og ég held að allir geri sér grein fyrir því, að gjöld og skattar og annað sem innheimt er af ökutækjum rennur ekki allt til málaflokka sem tengjast ökutækjunum eða eigendum þeirra og kannski væri staðan svolítið öðruvísi ef við myndum breyta því. Að því sögðu er ekki þar með sagt að þeir peningar nýtist endilega illa en það er annað verkefni að fara yfir rekstur ríkisins og draga hann saman sem er afar mikilvægt að gera sem allra fyrst.

Ég ætla aðeins að velta vöngum yfir nokkrum atriðum í þessu og m.a. eyða svolitlum tíma í almenningssamgöngur, borgarlínuna að sjálfsögðu og ég veit að ekki eru allir hissa því. Ég vil hins vegar byrja á að taka það fram í upphafi að almenningssamgöngur eru mjög mikilvægar. Það er mikilvægt að við séum með öflugt kerfi sem nái um land allt þannig að íbúar landsins geti nýtt sér almenningssamgöngur. Þær verða hins vegar að vera raunhæfar. Þær verða að sjálfsögðu líka að geta annað eftirspurn og þær verða líka að vera þannig að þær beri sig. Á köflum má færa rök fyrir því að niðurgreiða eigi almenningssamgöngur. Við getum svo farið í að velta því fyrir okkur hvað eru almenningssamgöngur og hvað ekki.

Mig langar hins vegar að velta einu upp, sem mér var reyndar bent á af manni sem hefur stúderað hagsveiflur og slíkt, að þegar hagvöxtur er og uppgangur í atvinnulífinu þá fjárfestir fólk í alls konar tækjum og tólum og húsnæði og slíku, þar á meðal í bifreiðum, en í niðursveiflu er svo dregið úr slíku og þá ferðast fólk eðlilega meira með almenningssamgöngum. Í ferðakönnun sem gerð var 2019 eru menn ekki að velta þessum hlutum fyrir sér, það er einfaldlega verið að mæla, eins og könnunin er, hvernig fólk notar almenningssamgöngur. Það kemur reyndar ekkert sérstaklega á óvart að það er mismunandi eftir hverfum á höfuðborgarsvæðinu, ég ætla að tala um höfuðborgarsvæðið í þessu tilfelli, og bæjarfélögum. Það er hins vegar nauðsynlegt að hafa í huga, þegar menn gera slíkar kannanir, hvort fylgni sé á milli ástandsins í atvinnulífinu eða efnahagslífinu eða ekki, bera það saman við eldri kannanir og þess háttar. Þetta segi ég bara því að það er svo mikilvægt að fá einhver tímabil sem við getum borið saman.

Ég held að lítil rök séu fyrir því í dag að fara í þá gríðarlega miklu fjárfestingu sem við sjáum í hinni svokölluðu borgarlínu. Ég held þó að það séu full rök fyrir því að reyna að bæta almenningssamgöngur, ekki síst fyrir þá hópa sem eru þannig settir að geta ekki átt eða jafnvel vilja ekki eiga bíl — það er valkostur sem ber að sjálfsögðu að virða. Það er mikilvægt að hafa í huga að tengsl eru á milli efnahagsástands og ferðavenja samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef.

Að því sögðu veltir maður fyrir sér hvaða áhrif framkvæmd á ákveðnum tíma hefur. Þetta er framkvæmd upp á 100–120 milljarða sem hér er talað um þegar allt er talið, þ.e. framkvæmdir í borgarlínu og tengdum verkefnum. Þetta eru gríðarlegir fjármunir og mjög mikilvægt að það liggi fyrir hverju þeir eiga að skila. Það kom hins vegar fram í andsvari í dag, þegar ég spurði hv. þingmann, að það liggur ekki fyrir. Það hefur ekki farið fram greining á því hver ábatinn af verkefninu er. Á sama tíma eru ekki til rekstraráætlanir hvað þetta varðar. Það er mjög mikilvægt — og nú sé ég einhverja hv. þingmenn hrista hausinn — að ef til er ábatagreining á þessu borgarlínuverkefni þá komi hún fram. (Gripið fram í.) Það er mjög mikilvægt. En hver er niðurstaðan í þeirri ábatagreiningu? Það væri ágætt að fá það fram fyrst niðurstaðan er til en hv. þingmanni sem ég spurði í dag var ekki kunnugt um það.

Mig langar líka að velta því upp í sambandi við þessa svokölluðu borgarlínu að þegar ekki eru til svör — og kannski fæ ég þau svör í andsvari eða ræðu á eftir — um heildarkostnað við þetta verkefni finnst mér mjög mikilvægt að stoppa og reyna að átta okkur betur á heildarkostnaði við verkefnið. Það er ekki hægt að láta standa eftir einhvern opinn tékka fyrir ríkissjóð. Mér finnst menn ganga svolítið kæruleysislega um fjármuni ríkissjóðs þegar kemur að þessu verkefni. Auðvitað spila sveitarstjórnarpólitík og landsmálapólitík inn í þetta og að sjálfsögðu þær skoðanir sem flokkar hafa á samgöngumálum. Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt að kenna Íslendingum, og er ég ekkert undanskilinn í því, að nota almenningssamgöngur. Ég held að það væri gott skref að byggja upp ákveðna þekkingu á þeim og þekkingu á notkun áður en farið er í þessar framkvæmdir.

Ég hef reyndar verið þeirrar skoðunar lengi að almenningssamgöngur, ekki síst þar sem þær skipta hvað mestu máli, eigi að vera ókeypis. Fólk á að geta notað samgöngur sér að kostnaðarlausu vegna þess að það er mikilvægt fyrir ákveðna hópa. Það myndi vonandi þýða að menn myndu nota þær enn frekar og meira en gert er í dag, sem kynni þá að byggja undir frekari þörf á útvíkkun kerfisins, ef þannig má orða það. Mér finnst menn vera að byrja á vitlausum enda. Aukning á notkun almenningssamgangna hefur ekki orðið í takt við þær væntingar sem uppi voru þegar farið var af stað með að fresta framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu og setja milljarða inn í samgöngukerfið, það hefur engan veginn staðist. Þó að þessi könnun frá 2009 segi að um 5% noti almenningssamgöngur, sem er hækkun milli kannana, þá var þetta lengi fast í 4%. Það er líka mjög mikilvægt að kenna fólki að nota þær, og ég endurtek að ég er ekki undanskilinn í því.

Mig langar að nefna eitt sem hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir nefndi hér og það er þessi heildstæða áætlun um almenningssamgöngur. Mér fannst það mjög áhugavert og ég tel mikilvægt að horfa á almenningssamgöngur í okkar stóra og víðfeðma landi, fámenna, sem heild og taka ekki eingöngu strætósamgöngur inn í það heldur líka flug og ferjur þar sem það á við og reyna að plana þetta heildstætt til framtíðar. Í mínum huga er innanlandsflugið hluti af almenningssamgöngukerfinu og ég veit að það er jafnvel skilgreint þannig. Því er mikilvægt að um þetta gildi heildstæð stefna, ég tek undir það með hv. þingmanni sem nefndi það.

Ég nefndi áðan borgarlínuna, kostnaðarmatið og ábatagreininguna, en arðsemismat var orðið sem ég ætlaði að nota — það er kannski það sama og þessar 120 blaðsíður sem nefndar voru í frammíkalli — en það væri áhugavert að sjá niðurstöðu arðsemismatsins. Það eru menn sem eru færari en ég í þessum útreikningum, þegar kemur að hönnun og kostnaði og öllu því, ég fatta ekki hvernig hægt er að gera arðsemismat um eitthvað sem enginn veit hvað kostar. Það hefur enginn getað sagt neitt til um það hvað borgarlínan kostar þegar upp er staðið. Í því felst að sjálfsögðu ákveðin áhætta, nema fyrir það sé algerlega girt á Alþingi, ef ríkissjóður er skuldbundinn til að halda bauknum opnum fyrir þetta verkefni.

Ekki er um það deilt að vegakerfið í heild er gríðarlega mikilvægt og einhver stærsta fjárfesting ríkisins, eins og kemur fram í nefndarálitum og þeim upplýsingum sem liggja fyrir. Það er mjög mikilvægt að huga vel að þessari fjárfestingu sem hefur því miður ekki nógu mikið verið gert. Það eru ýmsar ástæður á bak við það og engum einum um að kenna eða neitt slíkt. Það er hins vegar mikilvægt þegar tækifæri er til að setja fjármuni í samgöngukerfið, vegina. Við höfum séð það á undanförnum árum, meðan hér var mikil uppsveifla í ferðaþjónustu, sem vonandi verður aftur að einhverju leyti, að það er mjög mikilvægt að sú fjárfesting sé í lagi. Mig langar líka að nefna í því sambandi að ég tek undir það sem sagt er víða í þeim textum sem liggja fyrir okkur að orkuskipti, og það að gera landsmönnum og þeim sem heimsækja okkur kleift að nota vistvæn ökutæki, skipta gríðarlega miklu máli og við eigum að leita leiða til að styðja við það. Mig langar líka að koma því á framfæri að við þurfum mögulega að leita leiða til að beita jákvæðari hvötum en við gerum í dag til að draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti. Við eigum að hvetja fyrirtæki, t.d. í gegnum skattkerfið, til að skipta yfir í vistvænni tæki og búnað — og mögulega einstaklinga líka meira en gert er í dag.

Ég bjóst í raun við meiru þegar maður horfir á flugkaflann í samgönguáætlun. Aðeins hefur verið fjallað um það í þessari umræðu og vitanlega er ekki hægt að gera allt. En manni finnst eins og það vanti aðeins metnað þar vegna þess að það skiptir landsbyggðina mjög miklu máli, og í raun höfuðborgina líka, að koma ferðamönnum og íbúum til og frá höfuðborginni. Flugsamgöngur þurfa að vera góðar og á skynsamlegu verði, ef þannig má orða það, fyrir þá sem kjósa að nýta þær.

Það er jákvætt að setja aukið fjármagn í samgöngur. Það aukna fjármagn er vitanlega til staðar í kerfinu þar sem við skilum ekki öllum sköttum og gjöldum sem tekin eru af þeim sem nota samgöngukerfið í dag. Þess vegna set ég spurningarmerki við það þegar menn eru að tala um — auðvitað tengist það kannski notkunargjöldum sem fyrirhugað er að taka upp með einhverjum hætti — að auka álögur á þá landsmenn sem nota vegina. Ég ætla að ítreka það sem ég sagði áðan að álögur á bifreiðaeigendur verða að lækka á móti þeim auknu álögum sem ætlunin er að leggja á með notkunargjöldum í framtíðinni.

Hér hefur líka aðeins verið rætt um flugvöllinn í Reykjavík og langar mig að taka undir þær gagnrýnisraddir sem komu fram í nefndaráliti 2. minni hluta. Það hefur líka komið fram í ræðum að það er vitanlega mjög sérstakt að horfa upp á hvernig borgin eða borgarstjórn, borgarmeirihlutinn, berst um á hæl og hnakka fyrir því að eyðileggja þennan flugvöll og koma honum — ekki út í mýri, hann er þar — út í sjó þar sem hann á ekki séns eða að eyðileggja þetta hér í höfuðborginni. Það er samt alveg ljóst að það er vilji manna að hafa flugvöllinn hér um töluvert langan tíma, ekki síst í ljósi þess að svo virðist sem menn hafi skrifað undir þau samkomulög sem til eru með það í huga að hann yrði alla vega á sínum stað þar til búið væri að finna út nýjan völl á nýjum stað, að allt væri klappað og klárt. Það orðið mikilvægt að meiri hlutinn taki af skarið með það og væri mikið fagnaðarefni ef mönnum tekst að gera slíkt. Það verða að vera skýr skilaboð til borgaryfirvalda að fara ekki einhverja baktjaldaleið eins og virtist vera á ferðinni þegar við sáum fréttir um daginn um veg sem átti að fara í gegnum gamalt flugskýli sem notað er af flugfélaginu Örnum sem sinnir frábærri þjónustu fyrir okkur Íslendinga í samgöngum á landinu.

Vitanlega eru ákveðnir fjármunir settir í hafnarmálin og þykist ég vita að hringinn í kringum landið séu aðilar sem hefðu viljað sjá meiri fjármuni þar. Það er mjög mikilvægt að styrkja hafnir landsins alls. Sjóflutningar og fiskveiðar eru okkur mjög mikilvægar. Hér á höfuðborgarsvæðinu eða á suðvesturhorninu eru nokkrar hafnir sem eru mjög stórar þegar kemur að öllum flutningum og löndunum og slíku. Þær þurfa að sjálfsögðu áfram að fá fjármuni og eflast. En það má ekki heldur gleyma minni höfnum úti á landi sem eru oft á tíðum eins og lífæð fyrir minni sveitarfélög. Ég ætla kannski að geyma mér það þar til síðar að fara í álit 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar af því að ég bara gat ekki farið í andsvar við hv. þm. Guðjón S. Brjánsson sem skrifaði það, það eru ákveðnir hlutir sem ég skil bara ekki í þeirri nálgun. En það er nú eins og það er.

Virðulegur forseti. Þau mál sem við ræðum hér saman, samgönguáætlun 2020–2024 og 2020–2034, eru risamál. Það er eðlilegt að um þau sé fjallað og jafnvel tekist á. Ég hef spurt nokkurra spurninga, aðallega velt upp hlutum varðandi almenningssamgöngurnar og kannski kvartað örlítið yfir því að ekki fari meira fé í þær, þó að vissulega fari töluvert fé í þær. Auðvitað er fé takmarkað og útlit fyrir halla á ríkissjóði á næstu árum sem við þurfum að sjálfsögðu að taka tillit til. Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt að við einbeitum okkur að því á næstu mánuðum og árum að skoða rekstur ríkissjóðs, að stöðva þá þenslu sem virðist vera á kerfinu öllu saman og leita leiða til að draga saman ríkisreksturinn og færa þá út til einkaaðila það sem hægt er að vinna þar, nýta tækni og búnað til að spara fjármuni þannig að við getum þá sett meiri fjármuni inn í liði eins og samgöngumál sem við fjöllum um hér.

Forseti. Ég hlakka til ef hingað koma einstaklingar í andsvar eða ræður og segja mér hver kostnaðaráætlun fyrir borgarlínu er, hvert arðsemismatið er og hvernig rekstraráætlunin lítur út. Ég spurði einn af stuðningsmönnum þessa máls um það hér fyrr í dag en hann gat engu af því svarað. Ég hlakka til að heyra svörin ef þau liggja á reiðum höndum. Ég ítreka varnaðarorð mín, mér finnst ekki hægt að samþykkja neitt af þeim málum sem hér eru sem tengjast samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og sveitarfélaganna ef einhver óvissa er um ábyrgð ríkisins, um endanlegar skuldbindingar ríkisins, hvort sem það er í nútíð eða framtíð. Þetta verður að liggja fyrir. Ef menn telja nóg að skrifa inn í frumvörpin að Alþingi hafi lokaorðið þá verða menn að útskýra hvað er nóg því að við vitum að slíkt þarf að vera mjög skýrt ef það á að halda. Ég ætla bara að leyfa mér að orða það þannig og segi ekki meira um það. En læt þessu lokið í bili.