150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:04]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það kann að vera að mér hafi misheyrst, ég er ekki alveg viss, en mér fannst hv. þingmaður tala um að mikilvægt sé að almenningssamgöngur beri sig, séu sjálfbærar. Mig langar að biðja hv. þingmann að fara aðeins betur yfir það eða útskýra ef mér misheyrðist. Svo langaði mig aðeins að ræða ábatagreiningu eins og hv. þingmaður kom inn á. Nú er hv. þingmaður reyndar ekki í umhverfis- og samgöngunefnd en mér fyndist æskilegt, og ég vænti þess að hv. nefnd hafi gert það, að hafa til hliðsjónar gögn sem voru á sínum tíma unnin í tengslum við undirbúning að þessum höfuðborgasáttmála. Það er þannig að mikil vinna hafði átt sér stað á síðustu árum hjá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu eða í tengslum við svæðisskipulagið og frekari þróun í framkvæmdaáætlun þess. Jafnframt man ég að það var í tíð hv. þm. Jóns Gunnarssonar, þegar hann var hæstv. samgönguráðherra, að farið var aftur í greiningar á helstu gatnamótum á höfuðborgarsvæðinu, talningar og greiningar á tímum, og hvar hægt væri að segja að vandamálið lægi. Þetta er heilt kerfi og ekki er hægt að horfa á ein gatnamót og segja að þar sé vandamál og leysa það því að vandinn færist þá bara áfram á næsta stað. Þess vegna þarf að horfa á leiðirnar allar. Ég hygg að í því liggi ákveðin grunnur að ábatagreiningu, hvernig mikilvægt sé að takast á við samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu heildstætt. Ég bið hv. þingmann að koma aðeins inn á það að almenningssamgöngur beri sig. Svo fannst mér líka mjög áhugavert það sem hv. þingmaður sagði um að kenna almenningi að nota almenningssamgöngur. Væri gaman að heyra einhverjar tillögur í þeim efnum, hvernig hann sæi fyrir sér að sveitarfélög eða ríki beiti sér í þeim efnum, hver ætti að gera það og þá hvernig.