150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Strætóskólinn — nei, það sem ég var að meina með því að kenna ætti fólki að nota almenningssamgöngur er í raun að sýna fólki fram á þennan ferðakost og þá hvort hann henti viðkomandi einstaklingum um leið og menn vilja prufa hann. Það tengist fyrri spurningunni sem hv. þingmaður beindi til mín. Ég held nefnilega að það sé rangt að fara í svona stórar og miklar fjárfestingar þegar notkunin er ekki meiri en raun ber vitni. Ég held að það þurfi fyrst að kenna fólki að nota samgöngurnar áður en þú ferð í að blása kerfið svona mikið út eins og dæmið lítur út með borgarlínu. Þar komum við að fyrri spurningu þingmannsins. Ég sagði að það væri vitanlega best að almenningssamgöngur bæru sig. Ég geri mér líka grein fyrir því að ekki er hægt að ætlast til þess á mörgum stöðum.

Svo bætti ég því við að best væri vitanlega að á höfuðborgarsvæðinu væri frítt í strætó, það væri bara ókeypis í almenningssamgöngur. Þannig held ég að fólk myndi læra að nota þær. Þegar notkunin er orðin nógu mikil er kannski hægt að réttlæta það að fara í umfangsmiklar framkvæmdir. Þá er ég ekki endilega að tala um þær miklu framkvæmdir sem eru kynntar í þessari borgarlínu heldur framkvæmdir sem gera það að verkum að leiðin verði greiðari.

Ég man eftir því að hafa heyrt samgöngusérfræðinga halda því fram í fyrirlestrum að til séu ýmsar leiðir til að greiða fyrir samgöngum. Það sé ekki bara sú útgáfa af borgarlínu sem hér er verið að tala um, þær þrjár sem hafa verið nefndar, að það séu ýmsir aðrir þættir til. Óskandi væri að almenningssamgöngur bæru sig en þær gera það trúlega hvergi. Þar af leiðandi verðum við, held ég, bara að sætta okkur við það og segja: Heyrðu, við höfum bara ókeypis í strætó, kennum fólki að nota almenningssamgöngur og þegar fólk hefur lært að nota þær getum við kannski farið að skoða hvernig við getum breikkað og stækkað kerfið. Það er líka mjög athyglisvert að sjá í þessum könnunum á notkun að það er mjög misjafnt eftir sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu hvernig íbúarnir nota almenningssamgöngur og nota strætó í dag og líka hverjir sjá fyrir sér að nota þær.