150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Ég geri mér alveg grein fyrir því að notendagjöldin, eða hvað við köllum þetta í dag, standa ekki undir nema litlu af kostnaðinum við strætó. Nú verð ég að viðurkenna að ég þarf líklega að lesa mér eitthvað betur til um þetta en ég held að maður geti alveg séð fyrir sér þá mynd að við höfum frítt í strætó í fimm eða tíu ár, tökum kostnaðinn að okkur, kennum fólki að nota almenningssamgöngur og förum svo að rukka. Vitanlega værum við á sama tíma að segja að við værum að viðurkenna kostnað samfélagsins við almenningssamgöngur. Ég er sammála hv. þingmanni um að peningarnir koma einhvers staðar frá, þeir koma þá frá öllum skattgreiðendum vegna þess að við erum sammála um að við þurfum að hafa almenningssamgöngur. Þess vegna erum við tilbúin til að niðurgreiða þær og standa straum af þeim með okkar sköttum. Það tengist reyndar aðeins því sem ég nefndi í ræðu, að ég myndi gjarnan vilja sjá að eins væri litið á flugsamgöngur á landsbyggðinni, að þær væru miklu meira greiddar niður fyrir íbúa landsbyggðarinnar og að sjálfsögðu líka fyrir íbúa höfuðborgarinnar, þeir þurfa jú að fara út á land, þannig að þetta væri á sama stað. En mér finnst við vera að taka svolítið mikinn séns með það að fara í þessar gríðarlega miklu fjárfestingar, ekki öruggari með að notkunin verði endilega mikið meiri en er í dag.