150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:13]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á að leiðrétta smávegis misskilning. Það er bara þannig að almenningssamgöngur standa undir sér á langflestum stöðum því að það er annað sem ekki er tekið með í reikninginn og ég skal útskýra hvað það er akkúrat í þessu, því að hv. þingmaður bað um tölur. Og þær eru til. Hérna er 102 blaðsíðna skýrsla sem þar sem farið er yfir sviðsmyndagreiningar þess að byggja upp á höfuðborgarsvæðinu, eins og gert hefur verið á undanförnum árum, 60% nýbygginga utan þess svæðis sem er núna og 40% innan þess, svipuð uppbygging á stofnvegum og verið hefur o.s.frv., og allt það sama fram til ársins 2040.

Síðan eru gerðar tvær aðrar sviðsmyndir, B og C, með hraðvagni annars vegar og hins vegar léttlest. Þegar þessar sviðsmyndir eru bornar saman þar sem er meiri þétting innan svæðis en uppbygging í úthverfum, þá endar B-leiðin, þar sem ekki er eins mikið af almenningssamgöngum en hún endar sem borgarlínan, í auknum rekstrarkostnaði upp á 9 milljarða á árunum 2015–2040. Það er minna en hálfur milljarður á ári, mun minna í rauninni. Á móti er ábatinn — og nú verðurðu að halda þér fast, þetta er það sem útskýrir hvers vegna strætisvagna- og almenningssamgöngur borga sig — alls 114,8 milljarðar umfram sviðsmynd A, og það er mikilvægt, þ.e. umfram þá grunnsviðsmynd að byggja upp eins og við höfum gert á undanförnum árum og áratugum. Það er ábatinn sem við fáum við að byggja upp stofnvegakerfið líka, bara ekki eins mikið og í sviðsmynd A, en aðallega við að byggja upp borgarlínu: 114,8 milljarðar, gjörið þið svo vel.

Jú, þetta er nokkuð gömul greining en hún er mjög vel gerð. Ef ég sendi hv. þm. Birgi Þórarinssyni skýrsluna ættuð þið kannski að fara í samlestur á henni. En greiningin er mjög vel gerð (Forseti hringir.) og hún breytir ekki þessum stærðarhlutföllum, (Forseti hringir.) það er rúmlega tífaldur munur þarna á. Þó að hægt sé að fá aðeins nákvæmari tölur núna þá breytir það ekki (Forseti hringir.) stærðarhlutföllunum.