150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og þessar áhugaverðu upplýsingar sem ég þarf svo sannarlega að skoða, það er engin spurning. Mig langar hins vegar að spyrja þingmanninn út í tvennt: Var gerður samanburður á ábatanum af því að fara þessa leið og ábatanum af því að byggja áfram upp samgöngukerfi eins og gert hefur verið, þ.e. með þokkalega góðum strætisvögnunum og byggja upp umferðarflæðið í borginni þannig að auðvelt sé að komast leiðar sinnar á bifreiðum? Var þetta tekið inn í og man hv. þingmaður muninn á þessu öllu saman? Þetta eru auðvitað háar tölur, það er hárrétt. En hver er grunnurinn að ábatanum? Hvernig verður ábatinn til í þessu? Eins og hv. þingmaður og fleiri sjá hef ég ekki lesið þessa 100 blaðsíðna skýrslu sem hann vitnar í hér, en mér finnst það skipta svolitlu máli eða það er í það minnsta forvitnilegt hvernig og hvar þessi ábati verður til, hver grunnurinn er að ábatanum. Það verður enginn ábati af því að gera ekki neitt, en hver munurinn á ábatanum af því að fara venjulegu leiðina og þessa leið?