150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vona að hann virði það við mig að ég ætla að ræða við hann svolítið annan þátt samgönguáætlunar en hann ræddi hér. Hann hefur svo sem boðað að talað verði um þann þátt síðar og samflokksmenn í hans flokki þar sem hann er formaður hafa rætt hann ítrekað. Ég skynja það nú að við hv. þingmaður og samflokksmenn hans séum sammála um margt í samgöngumálum; áherslum í flugi, í vegamálum og uppbyggingu samgönguinnviða og ekki síst að á höfuðborgarsvæðinu hafi gengið hægt að koma framkvæmdum af stað. Það hefur gengið hægt að fá skipulagi breytt á höfuðborgarsvæðinu og það hefur gengið hægt að gera umferðarmódel og fá ljósastýringar á allt, laga stofn brautirnar og svo mætti lengi telja. En núna er komin leið til að laga það.

Ég vil fá að vita hjá hv. þingmanni hvað vandamál hann sér helst við þá leið sem höfuðborgarsáttmálinn er. Sáttmálinn er til þess að rjúfa tíu ára framkvæmdastopp á höfuðborgarsvæðinu. Það er búið að rjúfa tíu ára framkvæmdastopp og það tókst með því að gera samkomulag við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og ekki nóg með það að rjúfa framkvæmdastopp heldur fengum við sveitarfélögin til að taka þátt í að greiða fyrir innviðauppbyggingu innan sveitarfélaganna. Það eru ekki mörg sveitarfélög á Íslandi sem taka þátt í að borga fyrir eigin innviði en það er í þessu samkomulagi. Þannig að hvert er stóra vandamálið við höfuðborgarsáttmálann að mati hv. þingmanns?