150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:49]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna en verð að segja að það var býsna margt sem olli mér furðu í málflutningi þingmannsins og margt sem var einhvern veginn tekið úr samhengi úr samgönguáætlun eins og hún var lögð fram en ekkert fjallað um neitt af álitum nefndarinnar sem hér liggja fyrir, hvorki minnihluta- né meirihlutaálitið.

Það sem olli mér mestri furðu var umræðan um skosku leiðina. Þá vil ég bara fá hreint svar frá þingmanninum: Er hann á móti því að skoska leiðin verði tekin upp sem hefur verið helsta baráttumál mjög margra íbúa og sveitarfélaga í Norðausturkjördæmi þar sem það er talin vera leiðin til að tryggja jafnan aðgang að þjónustu eins og íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa? Þegar rætt er um að það séu eingöngu einhverjir ákveðnir staðir í Skotlandi sem noti þessa þjónustu þá veit ég ekki betur en að hún nái til 70.000 íbúa þar. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann þekki til þess hversu margir flugleggir, hversu margar innanlandsflugleiðir í Skotlandi, eru undanskildir þeim möguleika að farþegar fái endurgreiddan hluta af flugfari. Það er ekki það mikill tími eftir að ég kem að öðrum málum í seinna andsvari.