150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:22]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Það eru nokkur atriði sem komu fram í annars ágætri ræðu hv. þm. Loga Einarssonar sem mig langaði til að fara aðeins ofan í. Fyrsta atriðið sem stakk mig örlítið, en ég hef kannski ekki endilega betri tillögu, er það þegar hv. þingmaður nefndi kílómetragjald, að það væri kannski leið til að fjármagna vegaframkvæmdir þegar bensíngjöld verða gagnslaus sem verður vonandi í nánustu framtíð eða þegar fólk hættir að nota bensín. Þar hef ég áhyggjur af því, út af því að fólk er alltaf að reyna að stytta sér leið og það verður að vera einhvers konar eftirlit með þessu, að það gæti orðið einhvers konar persónuverndarvandamál í kringum það að fylgja kílómetragjaldi eftir og persónuvernd er almennt atriði sem verður alltaf veigameira í umræðum um samgöngur, ekki síst þegar verið er að setja upp fleiri og fleiri eftirlitsmyndavélar og annað til að reyna að fylgjast með notkun fólks á vegum þar sem gjaldtaka er. Það þýðir í raun að við höfum net nema sem fylgjast með ferðum fólks. Það væri gott að heyra álit hv. þingmanns á því.

Svo er það annað atriði sem ég vil spyrja um, af því að hv. þingmaður talaði um fegurðina í því að breyta háttum okkar, þ.e. hvort hv. þingmaður hafi skoðað eitthvað af viti þessar hugmyndir um svokallað örflæði, þ.e. þessi hlaupahjól og reiðhjólaleigur og annað sem komið er út um alla borg, hvort hann sjái fyrir sér einhverjar framfarir í framtíðarsamgöngumáta sem við erum að fara á mis við. Nú vil ég leita í þekkingu hans sem arkitekts. Nú er landið stærra en bara Reykjavík og (Forseti hringir.) hlaupahjólin ná ekki hvert sem er en það er til mikils að vinna að mínu mati.